14 Júní 2012 12:00

Á undanförnum árum hefur orðið athyglisverð þróun þegar kemur að innflutningi fíkniefna, sem og framleiðslu þeirra hér á landi. Þegar litið er til talna lögreglunnar um fíkniefnamál á höfuðborgarsvæðinu og borinn saman innflutningur og framleiðsla er munurinn nokkur. Skráð brot vegna innflutnings fíkniefna árin 2005-2008 voru mun fleiri en þau sem sneru að framleiðslu fíkniefna á sama tímabili. Í kjölfar efnahagsþrenginga og bankahruns árið 2008 varð hins vegar breyting í þessum efnum. Frá þeim tíma hefur þróunin algjörlega snúist við og málum vegna framleiðslu fíkniefna fjölgað hratt en málum vegna innflutnings fíkniefna heldur fækkað. Fjölgun mála er einkum kannabisræktunum um að kenna en fjöldi kannabisplantna er haldlagður á hverju ári. Í kannabis eru mörg ólík efni en eitt þeirra, THC, veldur aðallega vímuáhrifunum. Allar vísbendingar lögreglu benda til að meðalstyrkur þess fari hækkandi og er það áhyggjuefni. Stöðugur áróður um skaðleysi kannabis gerir líka illt verra en neysla kannabisefna getur einmitt haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Nánari upplýsingar um þróun fíkniefnamála á höfuðborgarsvæðinu má finna með því að smella hér.