2 Júní 2017 15:15
Laugardaginn 27. maí s.l var haldin umfangsmikil æfing lögreglu, Landhelgisgæslu, sjúkraliðs og björgunarsveita við Þuríðartind á Öræfajökli. Æfingin var haldin að tilstuðlan Lögreglustjórans á Suðurlandi með það í huga að æfa almannavarnarskipulag vegna hópslyss á hálendi austantil í umdæminu og ekki síður að láta reyna á tæknilega getu viðbragðsaðila við björgun við afar erfiðar aðstæður líkt og er að finna á jöklinum. Ástæða þessa er hin gríðarlega og sí vaxandi umferð fólks á jökla og um hálendið í umdæminu.
Samið var við Landsbjörgu og HSSR um uppsetningu æfingarinnar á jöklinum og var vinna þeirra mjög vel útfærð og verkefnin raunhæf. Æfingin gekk út á að 10 manna gönguhópur hefði lent í snjóflóði og þurfti því að leita, bæði í flóðinu og eins í jökulsprungum þar við.
Björgunarsveitarmenn, lögreglumenn og læknir sem komu í verkefnið voru ferjaðir með bílum, snjóbílum, þyrlu gæslunnar, snjósleðum og dregnir á skíðum á jökulinn auk þess sem fjórum björgunarsveitarmönnum var varpað í fallhlífum niður á jökulinn úr flugvél Landhelgisgæslunnar og síðan sóttir á lendingarstað á farartækjum á landi. Með þessu móti reyndi á getu til þess að ferðast um jökulinn með mismunandi hætti, raunveruleg mæling fékkst á þann tíma sem tekur að koma björgunarliði á vettvang sem þennan og þar með fengust upplýsingar um það hvað þarf til að auka líkur á að takist að bjarga fólki í slysi við þessar aðstæður.
Snjóflóðaleit var æfð við þessar aðstæður, með stöngum og snjóflóðaýlum. Einnig sprunguleit og björgun þar sem reyndi á möguleika til að búa um slasað fólk og hífa upp úr djúpum jökulsprungum.
Slysavettvangur var settur upp í fjarskiptaskugga þannig að samband þangað varð að tryggja með uppsettum gáttum og endurvörpun merkis.
Vettvangsstjórn var sett upp á austursvæðinu og aðgerðastjórn í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Þá var Samhæfingastöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra virkjuð.
Það er mat okkar að æfingin hafi tekist frábærlega og að hún hafi skilað mikilli þekkingu sem mun nýtast komi til verkefna sem þessara. Lögreglustjórinn á Suðurlandi þakkar þeim sem að æfingunni komu og lögðu hönd á plóg.