24 Júní 2010 12:00

Umferðardeild lögreglunnar fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir en tilkynnt var um stofnun hennar á fundi yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík þann 16. júní 1960. Aðaluppistaða deildarinnar var bifhjólasveit lögreglunnar, svo og lögregluþjónar á öðrum vélknúnum farkosti eftir því sem aðstæður leyfðu. Um þetta og margt fleira tengt umferðardeildinni má lesa í bókinni Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga.

Stofnun umferðardeildar vakti nokkra athygli en um málið var fjallað í einu dagblaðanna 21. júní 1960. Vísi bárust fréttir af að búið væri að stofna nýja deild, svokallaða umferðardeild, innan lögreglunnar. Eru í deildinni menn með 3 bíla og 8 mótorhjól. Aðsetur deildarinnar er í einum af skálunum í skátaheimili og telja þeir það mjög heppilegan stað fyrir starfsemi sína. Starfið hefst á hverjum morgni kl. 10, og er þá allt sett á stað, hvert mótorhjól fær sitt hverfi, en þau eru 8 alls sem fyrr segir og eru bílarnir þeim til aðstoðar. Einnig tekur einn bíllinn hverfi alveg, bili eitthvert mótorhjólanna. Vaktirnar eru 3 og sömu mótorhjólin alltaf notuð en sérstaka þjálfun þarf í meðferð þeirra, sérstaklega hinna stærri. Nánar verður fjallað um afmæli umferðardeildarinnar í sérstöku vefriti sem kemur út síðar í sumar.

Á myndunum hér að neðan má sjá tvær myndir af starfsmönnum deildarinnar. Sú efri er tekin á upphafsárunum en á henni eru Magnús Einarsson, Þorsteinn Steingrímsson, Snjólfur Pálmason, Skæringur Hauksson, Eric Steinsson, Sigurður Ágústsson og Jóhannes Björnsson. Á neðri myndinni, sem var tekin nýverið, eru núverandi starfsmenn umferðardeildar.