16 Ágúst 2018 12:13

 

Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært á annan tug ökumanna fyrir of hraðan akstur það sem af er vikunni. Sá sem hraðast ók mældist á 151 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Ökumaðurinn sá var undir lögaldri og því var forráðamönnum hans og barnaverndarnefnd gert viðvart um atvikið. Auk þessa bíður hans 230.000 króna sekt, svipting ökuleyfis í tvo mánuði og þrír refsipunktar í ökuferilsskrá.

Þá veittu lögreglumenn, sem voru við eftirlit á Reykjanesbraut í vikunni, bifreið einni athygli þar sem augljóslega voru of margir farþegar í henni. Í ljós kom að umframfarþegarnir voru tvö börn á aldrinum 6 og 11 ára og hvorugt þeirra í bílbeltum. Fullorðnu farþegarnir voru allir með öryggisbelti spennt. Ökumaðurinn var sektaður um 45 þúsund krónur og athæfið að auki tilkynnt til barnaverndarnefndar.