3 Júlí 2009 12:00

Í júnímánuði hófst sérstakt umferðareftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þjóðvegum í umdæmi hennar. Það fer fram á Vesturlandsvegi , Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut, sunnan Hafnarfjarðar. Eftirlitið er skipulagt í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra og tengist umferðaröryggisáætlun samgönguráðuneytisins. Það mun standa til 1. október næstkomandi.

Lögreglan leggur áherslu á sýnileika með það að markmiði að hvetja ökumenn til aðgæslu við akstur og koma þannig í veg fyrir slys og óhöpp. Þá verður fylgst með ökuhraða sérstaklega og því að öryggisbúnaður ökutækja og eftirvagna þeirra sé í lagi auk framlengdra hliðarspegla þar sem það á við vegna fellihýsa og hjólhýsa í eftirdragi.

Eftirlitið fer fram á hverjum degi í sumar en verður aukið síðdegis á föstudögum þegar umferð er hvað mest út af svæðinu og svo aftur síðdegis á sunnudögum þegar umferð þyngist að nýju til baka. Á föstudögum og sunnudögum verður lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auk þess, í samstarfi við lögregluliðin á Selfossi og Hvolsvelli, með umferðareftirlit allt austur að Hvolsvelli.

Lögreglan hvetur ökumenn til að virða rétt annarra vegfarenda til öryggis í umferðinni og sýna þá aðgæslu og varkárni sem nauðsynleg er til að allir megi koma heilir heim.