1 Júlí 2004 12:00
Lögreglan á Hvolsvelli í samvinnu við umferðardeild Ríkislögreglustjóra hefur í vikunni haldið upp öflugu eftirliti á Suðurlandsvegi í umdæmi lögreglunnar í tengslum við Landsmót hestamanna sem hófst á Gaddstaðaflötum við Hellu 28. júní og stendur til sunnudagsins 4. júlí n.k. Búist er við 10 til 12 þúsund gestum á Landsmótið með tilheyrandi umferð. Til eftirlitsins hafa verið m.a. notaðar þrjár lögreglubifreiðar sem umferðardeildin hefur lagt til ásamt lögreglumönnum auk lögreglubifreiða frá Hvolsvelli. Þá er lögreglan með til afnota öfluga stjórnstöðvarbifreið er embætti Ríkislögreglustjórans leggur til sem notuð er inni á mótssvæðinu að Gaddstðaflötum en bifreiðin er búin ýmiss konar tækjabúnaði til löggæslustarfa m.a. eftirlitsmyndavélum lík og fólk þekkir af götuhornum í miðbæ Reykjavíkurborgar og munu eftirlitsmyndavélarnar án nokkur vafa koma að góðum notum við löggæslu á Landsmóti hestamanna. Meðfylgjandi ljósmynd var tekin á mótssvæðinu í dag og á henni sést m.a. stjórnstöðvarbifreiðin til hægri þar sem mastur ljósa- og eftirlitsmyndavélanna hefur verið lyft upp af þaki bifreiðarinnar. Þá eru á ljósmyndinni að auki tvær aðrar lögreglubifreiðar sem notaðar verða ásamt öðrum lögreglubifreiðum m.a. frá Selfossi og Hafnarfirði við löggæsluna í tengslum við Landsmótið sem mun trúlega standa hvað hæst aðfaranótt laugar- og sunnudags þar sem dansleikir verða á mótssvæðinu bæði kvöldin. Ljóst má vera af þessu að lögreglan á Hvolsvelli er með töluverðan viðbúnað í tengslum við Landsmótið og hefur þar notið eins og fyrr segir góðrar aðstoðar embættis Ríkislögreglustjóra og Sýslumannsins á Selfossi, Lögreglustjórans í Reykjavík og Sýslumanna í Hafnarfirði og Kópavogi en lögreglumenn frá öllum þessum embættum koma að löggæslunni á Landsmóti hestamanna 2004.