8 Janúar 2014 12:00

Undanfarin ár hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldið úti sérstöku eftirliti með ölvunar- og fíkniefnaakstri í umdæminu í desember. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunar- og fíkniefnaakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni, og að sjálfsögðu að stöðva þá ökumenn sem aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Í desember 2013 stöðvaði lögreglan 5815 ökumenn víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við áðurnefnt eftirlit. Langflestir þeirra tóku afskiptunum mjög vel og raunar þökkuðu margir lögreglu fyrir að halda úti þessu eftirliti. Samhliða var almennt eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri í umdæminu, en alls voru 142 ökumenn handteknir á höfuðborgarsvæðinu í desember 2013, grunaðir um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Til samanburðar má nefna að í desember 2012 voru alls 114 ökumenn handteknir í umdæminu af sömu ástæðu. Þá voru 1022 ökumenn stöðvaðir í tengslum við sérstakt eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt tölunum hér að ofan ræðst fjöldi brota nokkuð af umfangi eftirlits lögreglu á hverjum tíma. Að meta alvarleika vandans eingöngu á þeim grunni er því hæpið. Betri mælikvarði í þeim efnum, að mati lögreglu, er fjöldi ökumanna sem eru undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og lenda í umferðaróhöppum/slysum. Fjölgun ölvaðra í umferð, t.a.m., ætti að þýða fjölgun þeirra sem lenda í óhöppum og öfugt. Jákvæðu tíðindin eru hins vegar þau að ökumönnum, sem lent hafa í umferðaróhöppum eða slysum og grunaðir eru um ölvunarakstur, hefur fækkað frá árinu 2008. Sama þróun hefur einnig átt sér stað hvað viðvíkur ökumönnum, sem grunaðir eru um fíkniefnaakstur. Óhöppum þeirra og slysum í umferðinni hefur fækkað frá árinu 2011. Samkvæmt því virðist þróunin stefna í rétta átt.

Á þeim jákvæðu nótum leyfir lögregla sér að hrósa þeim yfirgnæfandi meirihluta ökumanna, sem aldrei léti sér detta í hug að aka undir áhrifum. Um leið hvetur hún þá ökumenn sem ekki hafa gætt að sér, eða telja sig líklega til að láta freistast í framtíðinni og aka undir áhrifum vímuefna, til að hugsa sig um tvisvar og gæta þannig að eigin öryggi en ekki síður að öryggi annarra. Markmið okkar allra hlýtur að vera að enginn aki undir áhrifum vímuefna. Minnir lögregla í því sambandi á Umferðarsáttmálann sem vegfarendur skrifuðu sjálfir á síðasta ári og hljóðar svo um þetta efni:

„Ég fer aldrei af stað út í umferðina nema ég sé í ástandi til þess, hvort sem það er vegna vímu, andlegrar líðan, þreytu eða annarra þátta sem geta haft áhrif á hæfni mína til að taka þátt í umferðinni. Ég ek aldrei eftir að hafa bragðað áfengi.“