21 Ágúst 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík verður með sérstakt umferðareftirlit við upphaf nýs skólaárs líkt og undanfarin ár. Grunnskólar borgarinnar verða settir á morgun og í flestum þeirra hefst síðan kennsla af fullum krafti daginn eftir. Þúsundir barna streyma því í skólana en í þeim hópi eru margir krakkar sem setjast á skólabekk í fyrsta sinn.
Full ástæða er til að hvetja ökumenn til að sýna varúð. Börn gleyma sér gjarnan og geta átt það til að hlaupa fyrirvaralaust í veg fyrir umferð. Við skólana er iðulega 30 km hámarkshraði og það ber að virða undir öllum kringumstæðum. Því ítrekar lögreglan þau skilaboð til ökumanna að þeir sýni ungum vegfarendum alveg sérstaka tillitssemi.