6 Október 2009 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hraðamælt við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár og til þess notað m.a. ómerkta lögreglubifreið búna myndavélabúnaði. Með slíkum mælingum hafa fengist mikilvægar upplýsingar um umferðarhegðun ökumanna á tilteknum stöðum og tímum sem hefur verið miðlað áfram til viðkomandi sveitarfélaga og fjölmiðla.
Til upplýsingar hefur lögreglan nú skoðað brotahlutfall þeirra sem óku framhjá þremur grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári og jafnframt því kannað hvort barn eða börn á grunnskólaaldri væru skráð á heimili viðkomandi ökumanns. Skólarnir sem um ræðir eru allir í íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu og engin atvinnustarfsemi þar nærri. Í öllum tilfellum var leyfilegur hámarkshraði á mælingastað 30 km/klst. Mælingarnar fóru fram í sumar og á þeim tíma er skólarnir voru starfandi.
Heildarfjöldi ökutækja sem ekið var framhjá grunnskólunum var 207 og þar af var 123 ekið yfir leyfilegum hámarkshraða, eða 59%. Sektir voru gefnar út í öllum tilvikum til ökumanna.
Um fimmtungur ökumanna sem mældir voru, eða 21%, reyndust vera með barn eða börn skráð í heimili.
Ef einungis er litið til þeirra sem óku yfir leyfilegum hámarkshraða kemur í ljós að rúmlega þriðjungur þeirra, eða 36%, er með barn eða börn í heimili.