31 Október 2013 12:00

Umferðarmál voru ofarlega á baugi þegar fulltrúar lögreglunnar hittu að máli lykilfólk úr Háaleiti og Laugardal á árlegum fundi í gær. Sama hefur verið upp á teningnum undanfarin ár, en að þessu sinni er það hugsanleg þrenging á hluta Grensásvegar, og hvaða áhrif það kann að hafa á umferð um nærliggjandi götur, sem veldur áhyggjum hjá einhverjum. Hraðakstur í einstökum götum í hverfunum var einnig til umræðu, og þá kannski sérstaklega á Sundlaugavegi. Einnig var minnst á Laugardalinn, en þar hefur miðað vel þegar kemur að því að fækka stöðubrotum í tengslum við stórviðburði og má nefna þar sérstaklega landsleiki á Laugardalsvelli.

Fundurinn í gær var haldinn í þjónustumiðstöðinni í Hvassaleiti, og líkt og á öðrum hverfa- og svæðafundum í haust, var farið ítarlega yfir stöðu mála og þróun brota í báðum hverfunum. Auk þessa voru kynntar niðurstöður úr könnun, sem lögreglan lét framkvæma fyrr á árinu. Í henni er kannað viðhorf borgaranna til lögreglu, m.a. hvort þeir telji hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Þess má geta að fundurinn í Hvassaleiti var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.