22 Nóvember 2012 12:00
Málefni tveggja hverfa í austurborginni (Háaleiti-Bústaðir og Laugardalur) voru til umfjöllunar á fundi í Hæðargarði í gær. Á honum fóru fulltrúar lögreglunnar yfir þróun brota í hverfunum, en í þeim báðum hefur orðið ánægjuleg þróun frá árinu 2007. Innbrotum, ofbeldisbrotum og eignaspjöllum hefur fækkað og þá hefur slysum sömuleiðis fækkað frá 2008. Fundargestir voru að sjálfsögðu ánægðir með þessi tíðindi, en um er að ræða umtalsverða fækkun brota. Það var Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri sem fór yfir stöðu mála og svaraði spurningum ásamt Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra og Kristjáni Ólafi Guðnasyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni og yfirmanni umferðardeildar, en Kristján fjallað ennfremur sérstaklega um umferðarmál og þróun þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðarmálin voru einmitt ofarlega á baugi þegar opnað var fyrir fyrirspurnir, en sem fyrr hafa íbúar áhyggjur af hraðakstri. Líkt og á fleiri hverfa- og svæðafundum í vetur var nokkuð rætt um rafmagnsvespur og þau vandamál sem umferð þeirra skapar. Fundargestir höfðu einnig um ýmislegt að spyrja sem sneri að fíkniefnum og forvörnum. Þess má geta að fundurinn í gær, sem var vel sóttur, var sendur út í beinni útsendingu á netinu. Tölfræðina frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér.
Laugardalur
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is