25 Nóvember 2010 12:00

Umferðarmál eru íbúum í Háaleitishverfi og Laugardal ofarlega í huga en fulltrúar þeirra hittu lögregluna að máli á árlegum fundi þessara aðila sem haldinn var í Hæðargarði í gær. Fundarmenn lýstu yfir nokkrum áhyggjum þegar kom að umferðarmálum og bentu á allnokkur dæmi um hraðakstur í báðum hverfunum, m.a. við grunnskólana. Áhyggjur íbúanna eru vissulega á rökum reistar en það staðfesta hraðamælingar lögreglunnar á völdum götum það sem af er árinu. Þess ber jafnframt að geta að niðurstöður úr þeim eru sendar borgaryfirvöldum til skoðunar. Það er síðan hlutverk borgarinnar að bregðast við með hraðahindrandi aðgerðum þar sem við á. Hefðbundnum hraðamælingum í íbúðahverfum verður að sjálfsögðu framhaldið en lögreglan hyggst einnig vera við hraðamælingar á vegarköflum þar sem orðið hafa umferðaróhöpp og/eða slys. Ráðgert er að slíkar hraðamælingar, sem eru þegar hafnar, fari fram oftar en einu sinni á hverjum stað. Af þessu sést að lögreglan leggur allt kapp á að draga úr hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu.

Forvarnamál voru fólki líka hugleikin sem og öryggi borgaranna almennt. Nokkuð var rætt um nýlegt líkamsárásarmál þar sem 16 ára stúlka varð fyrir barðinu á fíkniefnaneytanda en sem betur fer er um einstakt mál að ræða. Á fundinum var jafnframt farið yfir þróun brota í þessum borgarhlutum en þá tölfræði má nálgast hér. Í báðum hverfum fækkaði innbrotum á heimili fyrstu tíu mánuði ársins í samanburði við sama tímabil í fyrra en samskonar þróun hefur einnig orðið annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Litla breytingu er hinsvegar að sjá hvað varðar fjölda ofbeldisbrota í Háaleitshverfi og Laugardal og sama má segja um eignaspjöll en slíkar tilkynningar til lögreglu eru ámóta margar árin 2009 og 2010.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is