4 Júní 2010 12:00

Á fimmta tímanum í morgun var lögregla og sjúkralið kölluð að tjaldstæði á Patreksfirði.  Þar hafði bifreið verið bakkað á eða yfir lítið tjald sem þar var.  Tveir erlendir ferðamenn voru sofandi í tjaldinu þegar atvikið átti sér stað.  Þeir voru fluttir á sjúkrahúsið á Patreksfirði en reyndust ekki alvarlega slasaðir.  Ökumaður bifreiðarinnar, sem einnig var í tjaldi á þessu sama tjaldstæði, er grunaður um ölvun við akstur.  Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina.

Annar maður var handtekinn snemma í morgun á Patreksfirði.  Sá hafði verið ölvaður og með ólæti.  Hann var látinn sofa úr sér áfengisvímuna áður en hann var látinn laus.  Að öðru leyti fór allt friðsamlega fram á Patreksfirði, en þar er nú töluverður mannfjöldi samankominn vegna hátíðarhaldanna í tengslum við Sjómannadaginn.