4 Febrúar 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar tveggja ökumanna vegna rannsóknar á umferðaróhappi á Reykjanesbraut/Breiðholtsbraut um helgina. Laugardaginn 2. febrúar kl. 18 var grænni Toyota Corolla, með skráningarnúmerinu SX 443, ekið norður Reykjanesbraut og inn á afrein að Breiðholtsbraut, en ökumaðurinn hugðist síðan aka vestur Nýbýlaveg. Á afreininni var tveimur bílum ekið á Toyotuna næstum samtímis, fyrst gráum jepplingi, mögulega Audi, og síðan dökkgrænum fólksbíl af stærri gerðinni. Jepplingurinn ók á framhorn Toyotunnar en hinn á afturstuðarann svo á sá. Við óhappið námu báðir tjónvaldarnir staðar eitt andartak, en héldu síðan rakleitt af vettvangi án þess að huga að ökumanni Toyotunnar eða farþegum í bílnum.

Lögreglan biður umrædda ökumenn um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að óhappinu eru hinir sömu beðnir um að  hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is