2 Janúar 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðaróhappi sem varð á mótum Reykjanesbrautar og  Breiðholtsbrautar á miðnætti á gamlárskvöld, eða klukkan 00.01 miðvikudaginn 1. janúar. Svörtum Chevrolet Spark M300 var ekið suður Reykjanesbraut og þaðan inn á afrein sem liggur upp á Breiðholtsbraut. Bíllinn, sem var á lítilli ferð, var á vinstri akrein og hugðist ökumaðurinn síðan aka Breiðholtsbraut í austurátt. Rétt áður en komið var inn á brúnna (Breiðholtsbraut) kom hins vegar dökkleit bifreið á móti og hafnaði á Chevroletinum. Dökkleita bílnum var ekið gegn einstefnu, en ökumaður hans ók af vettvangi um leið og kalla átti til lögreglu og tilkynna henni um málið. Við áreksturinn datt skráningarnúmerið af dökkleita bílnum, en í honum voru einnig tvær stúlkur og tóku þær skráningarnúmerið upp af götunni og hlupu síðan með það í áttina að versluninni BYKO þar sem þær hurfu sjónum.

Þeir sem urðu vitni að árekstrinum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000, en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is og í einkaskilaboðum til lögreglunnar á fésbókarsíðu hennar.