16 Janúar 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðaróhappi sem varð á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls í Reykjavík laust fyrir klukkan ellefu föstudagskvöldið 13. janúar sl. Þar var rauðum Subaru skutbíl ekið í veg fyrir bláa Toyotu Corolla með skráningarnúmerið DL-378. Ökumaður Subaru-bílsins, sem fór rakleitt af vettvangi, ók Höfðabakka í suður og hugðist beygja austur Bæjarháls en ökumaður Toyotunnar ók Höfðabakka í norður.

Ökumaður Subaru-bílsins er hvattur til að gefa sig fram sem og vitni í málinu. Upplýsingum um óhappið má koma á framfæri við lögreglustöðina á Krókhálsi 5b í Reykjavík í síma 444-1180 og 444-1190 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is