25 September 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að umferðaróhappi sem varð á hringtorginu við Rauðavatn aðfararnótt síðastliðins föstudags. Lögreglu var tilkynnt um óhappið um klukkan tvö eftir miðnætti, þann 21. september.

Óhappið var með þeim hætti að svörtum Dodge Durango var ekið um Breiðholtsbraut og inn á Suðurlandsveg þegar bifreið með tengivagn var ekið utan í vinstra framhorn bifreiðarinnar í hringtorginu. Á tengivagninum voru gámar merktir EIMSKIP, en vörubifreiðinni með tengivagninn var síðan ekið áfram vestur Suðurlandsveg í átt að borginni. Líklegt er talið að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki orðið óhappsins var.

Þeir sem hafa upplýsingar um vörubifreiðina með tengivagninn eða ökumann hennar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina á Krókhálsi í síma 444-1180 á skrifstofutíma eða senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is