29 Nóvember 2003 12:00

Í dag hefur verið tilkynnt um tvö umferðaróhöpp til lögreglunnar sem rekja má til hálku á yfirborði vega. Laust eftir kl.15:00 var tilkynnt um umferðarslys á Landvegi, móts við Marteinstungu, en þar hafði ökumaður nýlegrar jeppabifreiðar misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að jeppabifreiðin snérist, valt út af veginum niður nokkuð háan vegkant, fór þaðan í gegnum girðingu og hafnaði loks á hjólunum inni á túni. Í jeppabifreiðinni var ungt fólk með tvö börn. Tilkynnt var að farþegi væri fastur inni í bifreiðinni. Ung kona er sat í framsæti kvartaði yfir miklum eymslum í hálsi og handlegg og þótti ekki ráðlegt að hreyfa við henni auk þess sem yfirbygging bifreiðarinnar var talsvert gengin niður móts við höfuð hennar og ekki hægt að opna hurðir. Læknir og sjúkrabíll frá Hvolsvelli, ásamt tækjabílum frá Brunavörnum Rangárþings, komu á staðinn og með klippubúnaði tókst að ná konunni út úr bifreiðinni. Á slysstað var talsverður vindur og kalt. Konan var síðan flutt með sjúkrabíl í sjúkrahús í Reykjavík. Ung stúlka sem var farþegi í bifreiðinni kvartaði einnig yfir eymslum í hálsi. Ökumaðurinn og þriðji farþeginn, ungur drengur, sluppu án teljandi meiðsla. Bifreiðin er mjög mikið skemmd, ef ekki ónýt eftir veltuna. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með kranabifreið.

Þá valt undir kvöld önnur jeppabifreið á Suðurlandsvegi í Varmadal austan Hellu. Þar var á ferðinni einnig ungt fólk með þrjú ung börn sín en öll sluppu þau án teljandi meiðsla og má í þessu tilfelli eins og hinu fyrra á Landvegi þakka þeim öryggisbúnaði sem fólkið og börnin notuðu að ekki fór enn verr. Björgunarsveitarmenn frá Dagrenningu á Hvolsvelli á öflugri björgunarbifreið komu lögreglu til aðstoðar m.a. við að koma jeppabifreiðinni á hjólin á nýjan leik en hún hafði farið heila veltu og hafnað á vinstri hliðinni eftir að hafa oltið niður brattan vegtkantinn sem þarna er. Var jeppabifreiðin síðan dregin til Hvolsvallar og fjölskyldunni ungu ekið til sín heima en hún var að koma frá Reykjavík eftir innkaupaferð. Bifreiðin er talsvert skemmd og ekki ökufær. Þegar þetta gerðist þá gekk á með hvössum éljum og mikil hálka var á yfirborði vegarins og þannig er það enn, vegfarendur verða því að sína ítrustu aðgæslu á ferð sinni í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli sem og annarsstaðar sökum hálkunnar.