10 Júní 2005 12:00

Á þriðja tímanum í nótt varð umferðaróhapp í Dýrafirði þegar erlendur ökumaður missti stjórn á bílaleigubifreið sem hann ók.  Bifreiðin lenti út af veginum og fór a.m.k. eina veltu.  Ökumaðurinn sagðist hafa fipast þegar lamb hljóp inn á veginn í veg fyrir hann.  Ökumaðurinn var með öryggisbelti spennt og sakaði ekki, en bifreiðin er mjög mikið skemmd.

Á sjötta tímanum í morgun varð annað umferðaróhapp rétt fyrir innan Flateyri í Önundarfirði.  En þá valt lítil fólksbifreið út af veginum og fór a.m.k. tvær veltur.  Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði, en reyndist ekki alvarlega slasaður.  Hann er grunaður um að hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi og ekið undir áhrifum lyfja.  Þá var ökumaðurinn með útrunnin ökuréttindi. 

Nú í morgun var tilkynnt um að brotist hafi verið um borð í bát sem lá við bryggju á Ísafirði og þaðan stolið DVD spilara.  Slíkur spilari fannst í umræddri bifreið, er fór út af veginum í Önundarfirði.  Viðkomandi ökumaður er grunaður um að hafa stolið þessu tæki.