19 September 2013 12:00

Umferðarsáttmáli allra vegfarenda var afhentur forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, við athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í gær. Umferðarsáttmálanum, sem inniheldur nokkurskonar kurteisisreglur í umferðinni, er ætlað að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferð, hvernig við sýnum hvort öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi. 

Umferðarsáttmálinn hefur verið í vinnslu síðustu mánuði, en hitann og þungann af starfinu hafa borið fjórtán sjálfboðaliðar, karlar og konur á öllum aldri, sem allir hafa brennandi áhuga á umferðarmálum og umferðaröryggi. Í tengslum við verkefnið hefur jafnframt verið haldið úti heimasíðu og fésbókarsíðu með það að markmiði að fá viðhorf sem flestra til þess hvernig umferð okkar og umferðarmenning á að vera, hvað við gerum vel og hvað við getum gert betur. Afraksturinn er Umferðarsáttmáli allra vegfarenda, en sáttmálann má nálgast hér.

Hugmyndin að Umferðarsáttmálanum kom til umræðu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í lok síðasta árs og stofnaður var undirbúningshópur með þátttöku fulltrúa frá Umferðarstofu (nú Samgöngustofa). Auglýst var eftir þátttakendum á fésbókarsíðu lögreglunnar í ársbyrjun og í framhaldinu voru 14 manns valdir í verkefnið.

Á myndinni hér að ofan afhendir Gréta Björg Jakobsdóttir, fulltrúi umferðarhópsins, forsetanum Umferðarsáttmálann. Á neðri myndinni er umferðarhópurinn samankominn ásamt forsetanum, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og forstjóra Samgöngustofu.