5 Apríl 2022 12:08

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í síðasta mánuði. Ellefu einstaklingar slösuðust, enginn alvarlega að því talið er.

Slys varð á Nesgötu í Norðfirði í mánuðinum. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í aflíðandi beygju í krapa og hálku. Lenti framan á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Sex einstaklingar leituðu sér aðstoðar læknis í kjölfar óhappsins. Meiðsl talin minniháttar en áreksturinn var nokkuð harður.

Slys varð á Austurvegi á Reyðarfirði. Ökutæki var þá beygt til vinstri í veg fyrir bifreið er ekið var á móti. Talsverðar skemmdir urðu á ökutækjum. Ökumenn beggja bifreiðanna og farþegi í annarri þeirra kenndu eymsla og ætluðu að leita aðstoðar læknis.  Meiðsl talin minniháttar.

Slys varð á hringveginum í norðanverðum Álftafirði. Þá valt snjóruðningsbifreið, en hún mun hafa lent á misfellu í vegi. Ökumaður fluttur undir læknishendur. Meiðsl talin minniháttar.

Slys varð á Bleiksárhlíð á Eskifirði. Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni, fór út af, inn á lóð fjölbýlishúss og endaði á vegg þess. Ökumaður var fluttur undir læknishendur. Meiðsl ekki talin alvarleg.

Heildarfjöldi skráðra slysa það sem af er ári er tólf. Þau voru fimm á sama tíma í fyrra og því ljóst að fjölgun slysa er all nokkur í umdæminu. (Um bráðabirgðatölur að ræða.)

Flest slysanna tengjast slæmri færð á vegum og akstur því í einhverjum tilfellum ekki í samræmi við aðstæður. Mikilvægi þess því áréttuð hér að við ökumenn förum ævinlega um með ítrustu gætni en ekki síst þegar færð er erfið.

Ökum varlega og komum heil heim.