12 Október 2022 14:32

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt lögreglunni á Austurlandi í september síðastliðnum. Fimm leituðu aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks í þessum fjórum slysum. Í öllum tilvikum var um ökutæki að ræða sem lenti utan vegar. Tvö slysanna urðu á Möðrudalsöræfum, eitt á Seyðisfjarðarvegi og eitt í Álftafirði.

Umferðarslys voru níu talsins í síðasta mánuði og því nokkur fækkun milli mánaða. Slysum hefur þó fjölgað milli ára, en þau eru 36 það sem af er þessu ári en voru 28 á sama tíma í fyrra. Sex slys voru skráð í september 2021.

Fyrsta slys mánaðarins varð á öðrum degi hans þegar erlendur ferðamaður á leið um þjóðveg 1 á Möðrudalsöræfum ók út af eftir augnabliks aðgæsluleysi. Tveir voru í bifreiðinni sem valt. Þeir voru báðir fluttir með sjúkrabifreið á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Hvorugur talinn alvarlega slasaður.

Annað slys sambærilegt varð á Seyðisfjarðarvegi við Neðri-Staf þann 16. sept. Ökumaður sem var einn í bifreiðinni á leið til Egilsstaða ók út af eftir að hafa gleymt sér augnablik. Bifreiðin hélst á réttum kili en ökumaður kvartaði undan eymslum í brjóstkassa eftir atvikið. Hann var fluttur á heilsugæslu Seyðisfjarðar til aðhlynningar. Ekki talinn alvarlega slasaður.

Þann 20. sept. var flutningabifreið ekið áleiðis hringveginn í Álftafirði til suðurs. Fólksbifreið var ekið á móti. Þegar bifreiðarnar mættust þurfti ökumaður flutningabifreiðarinnar að aka út í vegkant til að forðast árekstur. Kanturinn gaf sig með þeim afleiðingum að bifreiðin valt. Ökumaður var fluttur nokkuð lemstraður en óbrotinn á fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.

Þann 27. sept. endaði ökutæki enn utan vegar og á hliðinni. Tveir erlendir ferðamenn voru þá á leið norður hringveginn í Víðidal á Möðrudalsöræfum þegar vindhviða feykti bifreið þeirra út af. Farþegi kvartaði undan eymslum vegna höfuðhöggs. Hann var skoðaður á vettvangi af sjúkraflutningsmönnum og gert að sárum hans þar.  Meiðsl minniháttar.

Lögreglan hvetur ökumenn til að gæta vel að sér við akstur og að hraða ökutækja sinna, ekki síst nú þegar færð á vegum tekur að spillast. Þá er hvatt til tillitssemi í hvívetna, svo sem þegar mæst er á þröngum vegum, ekki síst þar sem stór ökutæki eru á ferð.