12 Júlí 2022 13:19

Sex umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Austurlandi í júní. Níu einstaklingar þurftu að leita aðstoðar heilbrigðisþjónustu vegna þeirra. Þá varð banaslys í umdæminu í mánuðinum.

Ekkert umferðarslys var skráð í maí en fyrsta slys júnímánaðar átti sér stað laust eftir miðnætti miðvikudaginn 1. júní. Ökumaður á leið til Egilsstaða um Fagradal missti stjórn á bifreið sinni við Grænafell, rann yfir á öfugan vegarhelming og þar í veg fyrir bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Þrír slösuðust í árekstrinum, ökumenn beggja bíla og farþegi í öðrum þeirra. Allir virðast hafa sloppið með minni háttar meiðsl og þykir mildi. Rannsókn stendur yfir en grunur leikur á að ökumaður á leið norður hafi ekið yfir leyfilegum hámarkshraða.

Degi síðar lenti bifreið út af Norðfjarðarvegi við Skorrastaði og valt. Tveir voru í bifreiðinni og leitaði farþegi læknisaðstoðar eftir, ekki talinn alvarlega slasaður. Leikur grunur á að ökumaður hafi dottað við akstur.

Miðvikudaginn 8. júni varð önnur bílvelta, nú á Axarvegi við Þrívörðuhálsa. Einn var í bílnum og fluttur á heilsugæslu á Djúpavogi. Ekki talinn alvarlega slasaður. Ökumaður mun hafa misst útsýni úr bifreið sinni sökum ryks sem þyrlast hafði upp frá bifreið á undan og það orsakað óhappið.

Þriðjudaginn 14. júní átti þriðja bílveltan sér stað. Mun kind þá hafa hlaupið í veg fyrir bifreið á leið um Hróarstunguveg við Kirkjubæ á Héraði með þeim afleiðingum að ökumaður missti stjórn á henni og velti utan vegar. Hann fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið í Neskaupstað talsvert lerkaður.

Miðvikudaginn 15. júni féll eldri maður á reiðhjóli á Egilsstöðum og slasaðist nokkuð, jafnvel talinn fótbrotinn. Fluttur til meðhöndlunar á HSA á Egilsstöðum.

Sunnudaginn 19. júni var ökumaður á ferð á fjórhjóli á grófum malarslóða ofan Egilsstaða er hann missti stjórn á hjólinu og velti eftir að hafa lent á grjóti. Hann fékk hjólið yfir sig og slasaðist nokkuð þrátt fyrir að vera í góðum hlífðarbúnaði. Fluttur til aðhlynningar á HSA á Egilsstöðum.

Þriðjudaginn 21. júní varð enn ein veltan er flutningabifreið lenti út af Upphéraðsvegi við Ormarstaðaá í Fljótsdalshreppi. Ökumaður slasaðist talsvert og var fluttur til aðhlynningar á HSA á Egilsstöðum.  Mun hann hafa ekið of langt út á öxl vegarins með þessum afleiðingum.

Sama dag, um hádegisbil þriðjudaginn 21. júní, varð banaslys á Djúpavogi. Erlendur ferðamaður lenti þar fyrir lyftara. Það mál er í rannsókn.

 

Tuttugu umferðarslys hafa verið skráð á Austurlandi fyrstu sex mánuði ársins. Að meðaltali árin 2019 til 2021 voru þau tólf talsins. Ekkert banaslys varð á þeim árum.