20 Janúar 2012 12:00
Sex umferðarslys hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga, þar af tvö í sömu götunni. Á þriðjudagsmorgun kl. 7.01 missti hálfsextug kona stjórn á bílnum sínum þegar hún ók út úr hringtorgi í Ólafsgeisla í Grafarholti. Bíllinn valt og slasaðist konan á handlegg auk þess sem hún fékk hnykk á hálsinn. Nákvæmlega klukkutíma síðar var tæplega fimmtugur karl á ferð um sama hringtorg og hann missti líka stjórn á bílnum sínum, sem hafnaði á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Maðurinn var með áverka á baki og fæti. Mjög mikil hálka var á vettvangi og er henni um að kenna í báðum tilvikum. Sama dag kl. 17.49 rákust saman bíll og reiðhjól í hringtorgi á Dalvegi við Smáratorg. Svo virðist sem ökumaður bílsins hafi ekki séð hjólreiðamanninn en sá hjólaði á akrein í hringtorginu. Biðskylda er á umferð inn í hringtorgið. Hjólareiðamaðurinn slasaðist á baki. Á miðvikudagsmorgun kl. 8.12 var bíl ekið á vegrið við Ásbraut við Goðatorg í Hafnarfirði. Nokkur hálka var á veginum en rannsókn lögreglu beinist m.a. að því að bíllinn hafi verið á sumardekkjum. Vegriðið gekk inn í bíllinn og hafnaði á farþega í framsæti, konu á fimmtugsaldri, sem slasaðist á hendi. Klukkan 20.47 á miðvikudag varð ennfremur tveggja bíla árekstur á ljósastýrðum gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu í Reykjavík. Kona um tvítugt var flutt á slysadeild eftir áreksturinn en talið er að annar ökumannanna hafi ekið gegn rauðu ljósi. Og rúmlega sólarhring síðar, eða kl. 22.15 í gærkvöld, missti kona á fimmtugsaldri stjórn á bílnum sínum í mikilli hálku og ísingu á svipuðum slóðum, eða á mótum Hringbrautar og Bjarkargötu. Bíllinn kastaðist á steinsteypta girðingu við hús við götuna. Konan var flutt á slysadeild en meiðsli hennar voru talin minniháttar. Sama á við um aðra sem hér hafa verið nefndir að undanskildu umferðarslysinu í Hafnarfirði. Í því tilviki voru meiðsli konunnar talin alvarleg.
Það er mat lögreglu að hægt sé að koma í veg fyrir umferðarslys leggist allir á eitt um að aka gætilega og sýna tillitssemi í hvívetna. Á það skortir í allt of mörgum tilfellum. Til að freista þess að sýna fram á tengsl orsaka og afleiðinga að þessu leyti mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu senda út tilkynningu tvisvar í viku með upplýsingum um þau umferðarslys sem hún kemur að. Þar mun koma fram hvar, hvenær og með hvaða hætti slysið varð, að hverju rannsókn lögreglu beinist, hversu margir slösuðust og eftir atvikum alvarleiki meiðslanna.
Um tilraunaverkefni lögreglu er að ræða. Það mun standa yfir í einn mánuð til að byrja með og hófst formlega 1. janúar. Tilkynningarnar eru sendar út á þriðjudögum og föstudögum. Frá áramótum hafa orðið fjórtán umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu.