30 Janúar 2013 12:00
Í síðustu viku slösuðust tólf manns í níu umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Orsakir slysanna eru raktar til ölvunaraksturs, hraðaksturs, of stutts bils milli bifreiða, ógætilegs aksturs við vegamót og aksturs mót rauðu ljósi. Í öllum tilvikum er því um aðgæslu- og/eða tillitsleysi ökumanna að ræða. Er það ásættanlegt?
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 21. til 27. janúar:
Þriðjudaginn 22. jan. um klukkan 10 að morgni var bifreið á leið um Óseyrarbraut beygt til vinstri í veg fyrir bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn hentist sú bifreið inn á bifreiðaplan og þar á aðra bifreið kyrrstæða. Ökumaður í þeirri bifreið var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætileg vinstri beygja og of hraður aksturs ökutækis sem kom úr gagnstæðri átt.
Miðvikudaginn 23. jan. um klukkan 7 varð þriggja bíla árekstur á Hafnarfjarðarvegi skammt norðan Lyngáss. Bifreið á leið suður Hafnarfjarðarveg var þá ekið aftan á aðra sem hafði hægt á sér komandi að gatnamótum vegna bíla sem þar biðu. Sú kastaðist við höggið á bifreið sem fyrir framan var. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að orsök slyssins megi rekja til of hraðs aksturs og þess að ekki hafi verið gætt að nægjanlegu bili milli ökutækja.
Miðvikudaginn 23. jan. um klukkan 19 var bifreið beygt til hægri við gatnamót Háaleitisbrautar og Ármúla. Þar ók ökumaður á konu á leið yfir gangbraut á grænu ljósi. Hún leitaði sér aðhlynningar á slysadeild. Talið er að orsök slyssins megi rekja til ógætilegs aksturs á vegamótum og við gangbraut.
Fimmtudaginn 24. jan um klukkan 16 varð árekstur tveggja bifreiða á ljósastýrðum gatnamótum á Hafnarfjarðarvegi í Engidal. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður hinnar er grunaður um ölvun við akstur. Talið er að orsök slyssins megi rekja til aksturs á móti rauðu ljósi og ölvunar.
Fimmtudaginn 24. jan. um klukkan 20 varð árekstur tveggja bifreiða á ljósastýrðum gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar, ökumenn bifreiðanna og farþegi í annarri þeirra. Talið er að orsök slyssins megi rekja til aksturs á móti rauðu ljósi.
Fimmtudaginn 24. jan. um klukkan 20 var ekið á gangandi vegfaranda á bílaplani við Egilshöll. Hinn gangandi leitaði síðar aðhlynningar á slysadeild. Talið er að orsök slyssins megi rekja til aðgæsluleysis ökumanns.
Föstudaginn 25. jan. um klukkan 20 varð árekstur þriggja bifreiða á leið suður Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Bifreið var ekið með mikilli ferð til suðurs Bústaðaveg á sama tíma og ökumaður annarra bifreiðar á leið í sömu átt skipti um akrein. Þær lentu saman með þeim afleiðingum að sú sem hraðar ók lenti á þeirri þriðju. Tveir leituðu á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að orsök slyssins megi rekja til hraðaksturs.
Laugardaginn 26. jan. um klukkan 6 að morgni missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hringbraut við Bústaðaveg og endaði á ljósastaur utan vegar. Tvennt var í bifreiðinni og var ökumaður fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að orsök slyssins megi rekja til ölvunar við akstur.
Sunnudaginn 27. jan. um klukkan 18 varð árekstur tveggja bifreiða á ljósastýrðum gatnamótum á Hafnarfjarðarvegi við Lyngás. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að orsök slyssins megi rekja til aksturs á móti rauðu ljósi.