Frá vettvangi á Gullinbrú.
2 Febrúar 2015 12:46

Í síðustu viku slösuðust tuttugu og þrír vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. janúar.

Sunnudaginn 25. janúar kl. 12.54 varð hörð aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi við Vífilsstaðaveg. Ökumaður var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.

Mánudaginn 26. janúar kl. 1.05 var bifreið ekið á ljósastaur við Sæbraut á móts við Kirkjusand. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum  áfengis við aksturinn.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. janúar. Kl. 12.07 var ekið yfir fót á gangandi vegfaranda í Hraunbæ. Vegfarandinn hafði fallið í götuna á hálku áður en óhappið var. Ökumaðurinn virðist ekki hafa orðið var við atvikið því hann ók síðan leið. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.24 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Reykjanesbraut við frárennsli að Öldugötu og hafnaði á umferðarskilti utan vegar. Ökumaður bifreiðar, sem ekið var samhliða á hægri akrein, reyndi að beygja undan til að koma í veg fyrir árekstur, en endaði á hvolfi utan vegar. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreiðum. Önnur bifreiðin var búin slitnum hjólbörðum og annar ökumannanna var ekki í bílbelti.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 28. janúar. Kl. 12.17 varð hörð aftanákeyrsla tveggja bifreiða á Gullinbrú til suðurs. Þarna var sólin lágt á lofti og blindaði ökumenn á þessum vegarkafla. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið. Kl. 16.20  var bifreið ekið á ljósastaur á Miklubrautinni í vestur við aðreinina upp á Skeiðarvogsbrúnna. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.52 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut við Skeiðarvog. Tveir ökumenn og einn farþegi slösuðust og voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeildina í Fossvogi til skoðunar.

Fimmtudaginn 29. janúar kl. 12.50 varð bílvelta á Þingvallavegi við Skálafellsafleggjara. Bifreiðinni hafði verið ekið í lausasnjó á veginum með framangreindum afleiðingum. Hún fór eina og hálfa veltu og endaði á toppnum. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 30. janúar. Kl. 16.28 var bifreið ekið á vegrið á Vesturlandsvegi við Korpúlfsstaði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 19.46 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Sæbraut við Holtaveg. Ökumaður og tveir farþegar öftustu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.54 var bifreið ekið á strætisvagnsskýli á Kringlumýrarbraut á móts við Sóltún. Kona, sem sat í skýlinu og beið eftir strætisvagni slasaðist og var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur,  hafði teygt sig eftir hringjandi farsíma og missti við það stjórn á bifreiðinni.  Ökumaðurinn hafði ekki notað bílbelti. Þá var hjólbarðabúnaði áfátt.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 31. janúar. Kl. 12.25 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut við Stöng. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild með sjúkrabifreið. Og kl. 23.11 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið í Lækjargötu við Hverfisgötu. Hann var fluttur á slysadeild.

Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Hafa ber í huga að á þessum árstíma getur sólin verið lágt á lofti og blindað ökumönnum sýn. Þá má nefna, að gefnu tilefni, að notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg.

Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.

Frá vettvangi á Gullinbrú.

Frá vettvangi á Gullinbrú.