27 Febrúar 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Í einu þessara tilvika hljóp ung stúlka í hlið aðvífandi bifreiðar og slasaðist lítillega.  Orsakir annarra slysa eru raktar til ógætilegs aksturs ökumanna auk þess sem í einu tilviki leikur grunur á að ökumaður hafi sofnað. Sem fyrr má því rekja orsök slysanna fyrst og fremst til ökumanna sjálfra en ekki aðstæðna á vettvangi.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 18. til 24. febrúar:

Þriðjudaginn 19. feb. um klukkan 16 hljóp ung stúlka út á Holtagerði við Kársnesskóla, milli kyrrstæðra bifreiða og á hægri hlið aðvífandi bifreiðar. Ökumaður þeirrar bifreiðar var á lítilli ferð og náði strax að stöðva. Stúlkan var til öryggis skoðuð af lækni og reyndist lítið meidd. Atvikið sýnir hversu mikilvægt það er að ökumenn aki varlega hvar sem gangandi getur verið von og þá sér í lagi í skólahverfum þar sem börn eru á ferð.

Miðvikudaginn 20. feb. um klukkan 8 að morgni var bifreið ekið yfir gatnamót Hraunbrúnar og Reykjavíkuvegar á sama tíma og hjólreiðamaður var að fara yfir gangbraut norðan gatnamótanna. Lentu bifreið og reiðhjól þar saman með þeim afleiðingum að flytja þurfti hjólreiðamanninn á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur ökumanns bifreiðarinnar við vegamót.

Miðvikudaginn 20. feb. um klukkan 18 varð þriggja bíla árekstur á Bústaðavegi við Háaleitisbraut þar sem bifreið var ekið aftan á þá sem fyrir framan var með þeim afleiðingum að hún kastaðist á þá fremstu. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera of stutt bil milli bíla miðað við ökuhraða.

Miðvikudaginn 20. feb. um klukkan 23 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í beygju á Rimaflöt við Gylfaflöt með þeim afleiðingum að hún endaði á ljósastaur utan vegar. Ökumaður og farþegi leituðu sér aðhlynningar á slysadeild. Líkleg orsök slysssins er talin vera ógætilegur og of hraður akstur miðað við aðstæður.

Laugardaginn 23. feb. um klukkan 8 var bifreið ekið á ljósastaur á Hlíðarhjalla við Trönuhjalla. Talið er að ökumaður hafi sofnað við akstur.

Laugardaginn 23. feb. um klukkan 20 var bifreið ekið til vinstri í veg fyrir aðvífandi bifreið úr gagnstæðri átt á gatnamótum Gullinbrúar og Strandvegar. Báðar voru á grænu umferðarljósi. Ökumenn beggja bifreiða leituðu aðhlynningar læknis í kjölfar slyssins. Líkleg orsök slyssins er ógætileg vinstri beygja á vegamótum.