19 Febrúar 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Í einu þessara tilvika er orsök rakin til þess að ökumaður blindaðist af sól og ók á gangandi vegfaranda. Í öðru tilviki er orsök slyss rakin til ölvunar, en ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og endaði utan vegar.  Þá er grunur um að ökuhraði hafi ekki verið miðaður við aðstæður þegar bifreið valt í hálku og í þremur tilvikum var um aftanákeyrslur að ræða, þar af ein sem rakin er til farsímanotkunar ökumanns.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 11. til 17. febrúar:

Aðfaranótt mánudagsins 11. feb. um klukkan 2 var bifreið ekið vestur Hringbraut, yfir umferðareyju á Melatorgi og þá á ljósastaur nyrst í torginu milli Hringbrautar og Suðurgötu. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður er grunaður um ölvun við akstur og orsök slyssins rakin til ölvunar. 

Miðvikudaginn 13. feb. um klukkan 17 varð þriggja bíla árekstur við hringtorg á Vatnsendahvarfi. Bifreið var þá ekið á aðra sem kastaðist á þá þriðju. Ökumenn tveggja þessara bifreiða voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera of stutt bil milli bíla miðað við ökuhraða.

  

Miðvikudaginn 13. feb. um klukkan 18 varð fimm bíla aftanákeyrsla á Miklubraut við Rauðagerði. Einn fór á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera of stutt bil milli bíla miðað við ökuhraða.  

Fimmtudaginn 14. feb. um klukkan 13 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Fífuhvammsvegi við Smáralind með þeim afleiðingum að hún valt á hliðina. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera of hraður akstur miðað við aðstæður.

Föstudaginn 15. feb. um klukkan 14 var bifreið ekið suður Reykjaveg við Hofteig og á pilt sem var á leið yfir götuna við hraðahindrun. Pilturinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera of hraður akstur miðað við aðstæður, en ökumaður blindaðist af sól og sá því ekki það sem framundan var.

Sunnudaginn 17. feb. um klukkan 20 varð aftanákeyrsla á Hverfisgötu gegnt Landspítala, en ökumaður hafði hægt á hraða bifreiðar sinnar vegna hindrunar fyrir framan með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður og farþegi í bifreiðinni sem ekið var á, leituðu aðhlynningar á slysadeild. Líkleg orsök slyssins er rakin til farsímanotkunar ökumanns aftari bifreiðarinnar.