12 Febrúar 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í þremur umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Færri slys hafa ekki orðið á einni viku það sem af er ári. Í einu þessara tilvika var ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut, í öðru var um biðskyldubrot að ræða og í því þriðja var ekið á móti rauðu ljósi. Í öllum tilvikum var því um aðgæslu- eða tillitsleysi ökumanna að ræða gagnvart öðrum vegfarendum.

Vegna aðstæðna í einu þessara slysa, þar sem ekið var á gangandi vegfaranda á gangbraut, áréttar lögregla hvatningu til þeirra gangandi að sýna fyllstu aðgæslu þegar farið er yfir götu, fullvissa sig um að ökumenn aðvífandi ökutækja hafi séð þá og muni stöðva áður en farið er yfir. Þá hvetur lögregla ökumenn sem fyrr til að gæta ávallt að gangandi vegfarendum hvenær sem þeirra getur verið von og stöðva ætíð við gangbrautir. Lögregla bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, – alltaf.    

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 4. til 10. febrúar:

Að morgni mánudagsins 4. feb. um klukkan 8 var ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut í Skógarseli. Hinn gangandi leitaði sér síðar aðhlynningar á slysadeild. Ástæða slyssins er fyrst og fremst rakin til aðgæsluleysis ökumanns sem hélt áfram akstri þrátt fyrir skert útsýni sökum móðumyndunar í framrúðu.

Miðvikudaginn 6. feb. um klukkan 16 var bifreið ekið inn á Dalveg og í veg fyrir ökutæki sem ekið var vestur Dalveg. Biðskylda er á gatnamótunum. Ökumaður á leið vestur Dalveg var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er talin vera ógætilegur akstur á vegamótum þar sem umferðarréttur var ekki virtur.

Miðvikudaginn 6. feb. um klukkan 16 var bifreið ekið inn á gatnamót Reykjavíkurvegar og Hjallabrautar á móti rauðu ljósi og lenti þar í hlið bifreiðar sem ekið var á móti grænu ljósi. Tveir voru fluttir á slysadeild úr þeirri bifreið sem ekið var á, ökumaður og farþegi. Líkleg orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs á vegamótum þar sem ekið var á móti rauðu umferðarljósi.