27 Mars 2013 12:00
Dagana 18. til 22. mars slösuðust 14 vegfarendur í átta umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Tvö þessara slysa urðu með þeim hætti að ekið var á hjólreiðamann á gangbraut. Í báðum tilvikum má rekja orsakir þeirra til óaðgæslu ökumanns.
Lögreglan vekur af þessum sökum athygli ökumanna á að með hækkandi sól má gera ráð fyrir fjölgun hjólandi á götum höfuðborgarsvæðisins. Sýnum þeim tillitssemi og ökum varlega.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:
Mánudaginn 18. mars um klukkan 22 var bifreið ekið viðstöðulaust inn á Njarðargötu frá Bergstaðastræti og í veg fyrir ökutæki á leið um Njarðargötu. Árekstur hlaust af. Á Bergstaðastræti er stöðvunarskylda gagnvart umferð um Njarðargötu. Ökumenn beggja bifreiðanna þurftu aðhlynningar við á slysadeild sem og farþegi í annarri bifreiðinni. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs á vegamótum og brots á stöðvunarskyldu.
Þriðjudaginn 19. mars um klukkan níu var fólksbifreið á leið suður Reykjanesbraut hemlað snögglega og beygt til vinstri við vegamót. Ökumaður vörubifreiðar með festivagn er ók á eftir fólksbifreiðinni missti þá stjórn á ökutæki sínu með þeim afleiðingum að það valt. Ökumaður bifreiðar er kom úr gagnstæðri átt þurfti að aka út af til að lenda ekki á vörubifreiðinni. Einn slasaðist í óhappinu og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar sem hemlað hafði og beygt svo snögglega fyrir framan vörubifreiðina gaf sig fram við lögreglu í kjölfar slyssins. Málið er í rannsókn.
Þriðjudaginn 19. mars um klukkan 14 var bifreið ekið frá Sæbraut inn á bifreiðaplan við Laugarásbíó og aftan á ökutæki sem þar var fyrir. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.
Miðvikudaginn 20. mars um klukkan 18 var ekið á reiðhjólamann á leið yfir gangbraut á Laugavegi vestan Bolholts. Gangbraut er þar stjórnað með umferðarljósum. Virðist sem ökumaður hafi ekki gætt nægjanlega að aðstæðum eða gangbrautarljósum heldur ekið viðstöðulaust áfram og á hjólreiðamanninn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Föstudaginn 22. mars um klukkan átta var ekið á reiðhjólamann á leið yfir gangbraut á grænu gangbrautarljósi á gatnamótum Nýbýlavegar og Túnbrekku. Virðist sem ökumaður hafi ekki gætt nægjanlega að aðstæðum eða gangbrautarljósum heldur ekið viðstöðulaust áfram og á hjólreiðamanninn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Föstudaginn 22. mars um klukkan 13 var bifreið ekið suður Háaleitisbraut og beygt til vinstri við Bústaðaveg og í veg fyrir bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Ökumenn beggja bifreiða voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líklegt er að orsök slyssins megi rekja til ógætilegrar vinstri beygju á vegamótum.
Föstudaginn 22. mars um klukkan 17 stöðvuðu ökumenn þriggja bifreiða við gangbraut á Bústaðavegi austan Háaleitisbrautar til að hleypa gangandi vegfaranda yfir. Ökumaður á fjórðu bifreiðinni gætti ekki að sér og ók á mikilli ferð á öftustu bifreiðina með þeim afleiðingum að hún hentist á þá sem fyrir framan var sem aftur endaði á þeirri fremstu. Fjórir þurftu aðhlynningar við á slysadeild eftir óhappið. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur þar sem ekki var gætt að nægjanlegu bili milli ökutækja.
Föstudaginn 22. mars um klukkan 18 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu á Miklubraut austan Skeiðarvogs, datt og rann eftir götunni. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.