20 Mars 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fimm umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Um útafakstur var að ræða í tveimur tilvika þar sem grunur leikur á ógætilegum og of hröðum akstri miðað við aðstæður. Þá var orsök annarra slysa að leita í broti á stöðvunarskyldu, ógætilegum akstri á vegamótum og þess að hjólað var á móti rauðu gangbrautarljósi. 

Ástæða þykir til að geta þess hér að öll berum við ábyrgð í umferð, líka þau okkar sem eiga “réttinn“. Þannig er mikilvægt ef við ætlum að fækka slysum að sýna aðgát, kurteisi og tillitssemi, hvort sem ferðast er akandi, hjólandi eða gangandi.

Gerum þetta saman og við munum ná árangri.  

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Fimmtudaginn 14. mars um klukkan 11 fór reiðhjólamaður yfir Laugaveg á móti rauðu gangbrautarljósi og í veg fyrir aðvífandi ökutæki. Árekstur hlaust af. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að hjólað var á móti rauðu gangbrautarljósi.

Fimmtudaginn 14. mars um klukkan 16 var bifreið á leið vestur Vesturvör ekið í vinstri beygju í veg fyrir bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Ökumenn beggja bifreiðanna voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur á vegamótum.

Föstudaginn 15. mars um klukkan 19 valt bifreið á Krísuvíkurvegi. Hálka var á veginum er óhappið átti sér stað. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur í hálku.

Föstudaginn 15. mars um klukkan 20 var bifreið ekið inn á Arnarbakka frá Álfabakka, þar sem stöðvunarskylda er á gatnamótunum, og í veg fyrir bifreið sem ekið var suður Arnarbakka. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs og brots á stöðvunarskyldu.

Laugardaginn 16. mars um klukkan 17 valt bifreið á Bláfjallavegi.  Hálka var á veginum er óhappið átti sér stað. Tveir þurftu aðhlynningar við á slysadeild. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur í hálku.