24 Apríl 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Í tveimur tilvikum var um aftanákeyrslu að ræða, í einu var ekið í veg fyrir ökutæki á gatnamótum og í öðru á ungan pilt á leið yfir gangbraut. Þá missti ökumaður stjórn á fjórhjóli sínu og endaði á umferðarskilti.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 15. apríl um klukkan 18 var ekið aftan á kyrrstæða bifreið sem stöðvað hafði við gangbraut á Strandgötu til að hleypa gangandi vegfaranda yfir. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfar óhappsins. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs þar sem ekki var gætt að nægjanlegu bili milli bíla.

Miðvikudaginn 17. apríl um klukkan 14 var ekið á ungan pilt á leið yfir gangbraut á Álfhólsvegi. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aðgæsluleysis ökumanns sem ók of hratt miðað við aðstæður.

Fimmtudaginn 18. apríl um klukkan 16 var ekið í veg fyrir bifreið á Höfðabakka við Bíldshöfða. Tveir leituðu sér aðhlynningar á slysadeild. Orsök slyssins er rakin til ógætilegrar vinstri beygju á vegamótum.

Fimmtudaginn 18. apríl um klukkan 17 var ekið aftan á bifreið er stöðvað hafði við rautt umferðarljós á Snorrabraut við Hverfisgötu. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er m.a. rakin til ógætilegs aksturs þar sem ekki var gætt að nægjanlegu bili milli bíla.

Fimmtudaginn 18. apríl um klukkan 18 missti ökumaður fjórhjóls stjórn á hjólinu á Skyggnisbraut við Úlfarsfell, þegar hann jók inngjöf í stað þess að hemla. Hann endaði á umferðarskilti og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Fimmtudaginn 18. apríl um klukkan 18 missti ökumaður fjórhjóls stjórn á hjólinu á Skyggnisbraut við Úlfarsfell, þegar hann jók inngjöf í stað þess að hemla. Hann endaði á umferðarskilti og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.