16 Desember 2014 15:29
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. desember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 7. desember. Kl. 3.29 varð árekstur með bifreið sem ekið var suður Snorrabraut og bifreið sem ekið var norður þá götu og beygt áleiðis vestur Gömlu Hringbraut, í veg fyrir fyrrnefndu bifreiðina. Ökumaður kenndi til eymsla og var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.35 varð harður árekstur og slys á mótum Suðurlandsbrautar og Reykjavegar. Bifreið var ekið suður Reykjaveg og beygt til vinstri áleiðis austur Suðurlandsbraut, í veg fyrir aðra bifreið, sem ekið var vestur Suðurlandsbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 8. desember kl. 20.46 féll 7 ára gamall drengur út um neyðardyr aftast í rútu þar sem henni var ekið um Kársnesveg við Urðarbraut áleiðis að Kópavogslaug. Drengurinn meiddist á höfði og var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 9. desember. kl. 13.12 varð þriggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi, á aðrein að Höfðabakka til austurs. Bifreiðunum var öllum ekið í sömu átt, en í aðreininni snérist fremsta bifreiðin skyndilega á veginum og endaði með framendann á móti umferð með þeim afleiðingum að árekstur varð með henni og bifreiðum sem á eftir komu. Mikil umferð og hálka var þarna á þessum tíma. Fremsta bifreiðin var búin sumardekkjum að framan. Ökumaður einnar bifreiðarinnar meiddist og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.
Miðvikudaginn 10. desember kl. 15.42 varð aftanákeyrsla á Höfðabakka skammt frá Gullinbrú. Bifreið var ekið aftan á aðra bifreið, sem kastaðist aftan á þá þriðju. Aftasta bifreiðin var með ófullnægjandi dekkjabúnað, ótryggð og ökumaðurinn sviptur ökuréttindum. Farþegi í bifreiðinni úlnliðsbrotnaði og var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 12. desember kl. 18.02 varð árekstur tveggja bifreiða á Kaldárselsvegi við afrein af Reykjanesbraut. Bifreið var ekið austur Kaldárselsveg og hinni afreinina af Reykjanesbraut og beygt áleiðis vestur veginn. Farþegar í sitthvorri bifreiðinni meiddust og voru fluttir á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 13. desember. Reiðhjólaslys varð á Suðurströnd, á móts við Lindarbraut. Hjólreiðamaðurinn hafði hjólað vestur göngustíg, sem staðsettur er sunnan við Suðurströnd og þar til hliðar við hann, áleiðis yfir lítinn hól, er hann féll við. Talsverð snjókoma var þegar óhappið átti sér stað, kalt í veðri, frost og smá gola. Mikill klaki og snjór var á göngustígnum. Hjólreiðamaðurinn fékk höfuðmeiðsl og var fluttur á slysadeild. Kl. 15.29 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesveg. Ökumaður einnar bifreiðarinnar meiddist í baki og var fluttur á slysadeild. Kl. 16.14 valt bifreið í hringtorgi á Vatnsendavegi við Álfkonuhvarf. Bifreiðin rann til í hálku með framangreindum afleiðingum. Ökumaðurinn meiddist á fingri og ætlaði sjálfur að leita sér aðhlynningar. Og kl. 20.38 var bifreið ekið vestur Hringbraut þegar hún snerist á götunni, rann aftur á bak og hafnaði aftan á kyrrstæðri og mannlausri bifreið móts við Hringbraut 52. Við höggið kastaðist sú bifreið áfram og lenti aftan á þriðju bifreiðinni, einnig kyrrstæðri og mannlausri. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til skoðunar en hann kenndi til eymsla í baki eftir óhappið.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Hvorugt kostar peninga, en getur komið í veg fyrir umferðarslys með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar beygt er til vinstri á gatnamótum, auk þess sem ökumenn verða að gæta þess að dekkjabúnaður bifreiða þeirra sé viðunandi miðað við aðstæður. Og ökumenn – sýnið örlæti í aðdraganda jólanna og gefið stefnuljós. Í desembermánuði er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í sérstöku eftirliti með ölvunar-, lyfja- og fíkniefnaakstri.