18 Apríl 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Athygli vekur að í þremur tilvikum var ekið á gangandi eða hjólandi vegfaranda í íbúða- og skólahverfum.

Lögreglan hvetur ökumenn því til að gæta sérstaklega að sér hvar og hvenær sem gangandi eða hjólandi vegfarenda getur verið von. Gætum hvert að öðru, gerum þetta saman.  

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 8. apríl um klukkan 19 var bifhjóli á leið norður Reykjanesbraut við Setbergshverfi ekið aftan á pallbifreið á sömu leið. Ökumaður bifhjólsins var fluttur mikið slasaður á slysadeild. Rannsókn málsins stendur yfir og beinist m.a. að meintum hraðakstri ökumanns á bifhjólinu.

Mánudaginn 8. apríl um klukkan 21 var ekið á unga stúlku á gangbraut á Bústaðavegi við Espigerði. Stúlkan var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs ökumanns miðað við aðstæður.

Miðvikudaginn 10. apríl um klukkan 17 var ekið á unga stúlku á reiðhjóli á Hagamel við Melaskóla, á leið yfir götu. Stúlkan var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs ökumanns miðað við aðstæður.

Fimmtudaginn 11. apríl um klukkan 7 að morgni var ekið á pilt á upphækkaðri gönguleið á bifreiðaplani við Kópavogsskóla. Pilturinn var fluttur til aðhlynningar á slysadeild. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur ökumanns miðað við aðstæður.  

Föstudaginn 12. apríl um klukkan 19 var bifreið ekið í vinstri hlið bifreiðar á bifreiðastæði við Smáratorg. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur ökumanns við beygju til hægri.