23 Maí 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust 11 vegfarendur í átta umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 13. maí um klukkan 22 var bifreið ekið frá Hafnarstræti og í veg fyrir bifreið á leið um Pósthússtræti. Einn leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfarið. Slysið er rakið til ógætilegs of hraðs aksturs og biðskyldubrots ökumanns á leið um Hafnarstræti.

Þriðjudaginn 14. maí um klukkan 18 missti hjólreiðamaður stjórn á hjóli sínu þar sem hann var á leið niður Bíldshöfða í átt að Sævarhöfða með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Föstudaginn 17. maí um klukkan 16 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í lausamöl á Hvalfjarðarvegi og endaði utan vegar. Ökumaður slasaðist lítillega. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.

Föstudaginn 17. maí um klukkan 23 var ökutæki á leið suður Strandgötu skyndilega beygt til vinstri í ætlaða U- beygju þrátt fyrir yfirborðsmerkingar og umferðarmerki sem banna slíkan akstur.  Ökumaður sem var næstur á eftir ók í vinstri hlið ökutækisins. Einn leitaði sér aðhlynningar á slysdeild í kjölfarið. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs.

Aðfaranótt laugardagsins 18. maí var bifreið á leið austur Sæbraut við Kirkjusand ekið aftan á bifreið er þar var kyrrstæð á rauðu ljósi. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á, var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aðgæsluleysis og of hraðs aksturs miðað við aðstæður.

Laugardaginn 18. maí um klukkan 13 var bifreið ekið í veg fyrir reiðhjól á leið um Streng og inn á Breiðhöfða. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs ökumanns bifreiðarinnar um gatnamót.

Laugardaginn 18. maí um klukkan átta var bifreið á leið inn á Nýbýlaveg frá Dalvegi ekið aftan á bifreið sem þar var kyrrstæð við biðskyldu. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs of hraðs aksturs miðað við aðstæður.

Laugadaginn 18. maí um klukkan 16 var  bifreið beygt til vinstri frá Hringbraut að Birkimel og þar í veg fyrir bifreið sem ekið var austur Hringbraut. Harður árekstur varð og þrír fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er rakin til ógætilegrar vinstri beygju á gatnamótum.