16 Maí 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í níu umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 6. maí um klukkan 15 var bifreið ekið aftan á bifhjól þar sem það hafði stöðvað við biðskyldu á gatnamótum Birkimels og Hringbrautar. Ökumaður hjólsins leitaði sér aðhlynningar á slysadeild. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs ökumanns bifreiðarinnar við gatnamót.

Þriðjudaginn 7. maí um klukkan 11 var bifreið ekið frá Kársnesbraut inn á Vesturvör og þar í veg fyrir aðvífandi bifreið. Ökumaður bifreiðarinnar er ekið var í veg fyrir, leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfarið. Slysið er rakið til biðskyldubrots ökumanns á leið um Kársnesbraut.

Fimmtudaginn 9. maí um klukkan 17 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið þar sem báðum var ekið vestur Suðurlandsveg við Bolöldu. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður aftari bifreiðarinnar mun hafa sofnað við aksturinn og orsök slyssins rakin til þess.

Föstudaginn 10. maí um klukkan 8 hafði brunnlok færst úr stað við Vatnagarða með þeim afleiðingum að framhjól bifreiðar lenti þar ofan í. Ökumaður missti stjórn á henni og hún valt á hliðina. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Föstudaginn 10. maí um klukkan 13 varð aftanákeyrsla við gatnamót Miklubrautar og Háaleitisbrautar sem varð til þess að sú bifreið sem ekið var á kastaðist á þá þriðju. Þrír leituðu sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfarið. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs of hraðs aksturs miðað við aðstæður.

Föstudaginn 10. maí um klukkan 16 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Suðurlandsbraut með þeim afleiðingum að henni var ekið á strætóskýli og endaði talsvert utan vegar. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Rannsókn málsins stendur yfir og beinist m.a. að of hröðum akstri ökumanns.

Sunnudaginn 12. maí um klukkan 12 hjólaði ökumaður af göngustíg og inn á Mosaveg þar sem hann lenti í hlið aðvífandi bifreiðar. Hann leitaði sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfarið. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur reiðhjólamannsins á leið hans yfir veg.

Sunnudaginn 12. maí um klukkan 13 var bifreið ekið á móti rauðu ljósi á gatnamótum Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar og í hlið bifreiðar sem var á leið yfir gatnamótin á sama tíma. Einn var fluttur slasaður á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til akstur á móti rauðu ljósi.

Sunnudaginn 12. maí um klukkan 18 varð árekstur með tveimur bifreiðum á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Engjavegar. Einn var fluttur á slysdeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til aksturs á móti rauðu ljósi.