9 Maí 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í jafn mörgum umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu.  Athygli vekur að af þeim er um fjögur reiðhjólaslys að ræða, tvö bifhjólaslys og eitt er tengist fjórhjóli.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 29. apríl um klukkan 19 ók ökumaður á rafmagnsreiðhjóli af gangstétt, inn á Klukkurima við Langarima og þar í hlið bifreiðar er leið átti um Klukkurima. Ökumaður hjólsins var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður og ógætilegur akstur ökumanns á reiðhjólinu.

Miðvikudaginn 1. maí um klukkan eitt eftir miðnætti missti ökumaður reiðhjóls stjórn á hjóli sínu við að fara yfir hraðahindrun og féll við. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður reiðhjólsins var ölvaður og slysið rakið til þess.

Miðvikudaginn 1. maí um klukkan 14 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu í beygju við Flókagötu og féll í götuna. Vegyfirborð var blautt og hált er slysið átti sér stað. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Óhappið er rakið til of hraðs aksturs miðað við aðstæður.

Fimmtudaginn 2. maí um klukkan 16 var ökutæki ekið út úr lokuðu porti við Ármúla, yfir gangstétt sem liggur meðfram portinu og í veg fyrir aðvífandi ökumann á rafmagnsreiðhjóli er ók eftir gangstéttinni. Ökumaður reiðhjólsins lenti á bifreiðinni miðri og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök óhappsins er ógætilegur aksturs ökumanns bifreiðarinnar út úr lokuðu porti og yfir gangstétt og eins ógætilegur hraður akstur ökumanns rafmagnsreiðhjólsins á gangstétt.

Laugardaginn 4. maí um klukkan 12 missti ökumaður stjórn á fjórhjóli við Lambhaga og lenti á húsvegg. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til óaðgæslu- og reynsluleysis ökumanns.

Laugardaginn 4. maí um klukkan 21 missti reiðhjólamaður stjórn á hjóli sínu á Melavegi við Dofraborgir og féll í götuna. Hann var hjálmlaus og hlaut höfuðmeiðsl. Fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er að ökumaður hafi hjólað of hratt og ógætilega miðað við aðstæður.

Laugardaginn 4. maí um klukkan 23 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Sæbraut gegnt Hörpu með þeim afleiðingum að bifreiðin valt. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður ógætilegur akstur.  

Sunnudaginn 5. maí um klukkan 17 var ekið á barn á bifreiðastæði Hagkaupa við Smáralind. Það flutt á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.

Sunnudaginn 5. maí um klukkan 18 missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjóli sínu á mótorkrossbraut við Tungumela, en hann var þar við æfingar. Hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.