2 Maí 2013 12:00

Í síðustu viku slösuðust tveir vegfarendur í tveimur umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu og hafa ekki verið færri á einni viku frá áramótum.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Mánudaginn 22. apríl um klukkan 10 missti ökumaður stjórn á reiðhjóli sínu og féll í götuna þegar framdekk reiðhjólsins lenti ofan í vatnsrennu á plani við Hörpuna. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ábendingar bárust lögreglu í kjölfarið um að fleiri reiðhjólamenn hafi lent í svipuðum hremmingum. Upplýsingum um það var komið til Reykjavíkurborgar með úrbætur í huga.

Fimmtudaginn 25. apríl um klukkan 19 var bifreið ekið austur Engjasel, inn á Seljabraut og þar í veg fyrir aðvífandi bifreið. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs við vegamót, en biðskylda er á Engjaseli gagnvart umferð um Seljabraut.