27 Júní 2013 12:00

Á hálfum mánuði, dagana 10. júní til 23. júní, voru 12 umferðarslys tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sextán manns slösuðust.  

Ef skoðaðar eru slysatölur fyrir júnímánuð, allt til þess tuttugasta og sjöunda þegar þetta er ritað, má sjá að tilkynnt umferðarslys eru 19 talsins. Til samanburðar var heildarfjöldi umferðarslysa 32 í júní í fyrra. Það má því búast við nokkurri fækkun slysa þennan mánuðinn miðað við sama mánuð í fyrra.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysa frá 10. júní til 23. júní:

Þann 10. júní um klukkan 16 var bifreið ekið utan í mann á Vatnsendavegi við Tröllakór, en hann var þar til aðstoðar ökumanni sem lagt hafði bilaðri bifreið sinni í vegkanti. Sá er ekið var á leitaði sér í framhaldinu aðhlynningar á slysadeild. Málið er í rannsókn og beinist m.a. að ógætilegum of hröðum akstri miðað við aðstæður.

Þann 11. júní um klukkan 22 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Gullinbrú við Funafold og endaði á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Málið er í rannsókn og beinist að hraðakstri ökumanns langt yfir leyfilegum hámarkshraða.   

Þann 12. júní um klukkan 8 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Stekkjarbakka. Tveir leituðu sér aðhlynningar á slysadeild. Líkleg orsök slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður þar sem ekki er gætt að nægjanlegu bili milli ökutækja.

Þann 12. júní um klukkan 13 hljóp ungur piltur yfir Suðurgötu við Sturlugötu og lenti fyrir bifreið á vinstri akrein sem var að fara fram úr annarri bifreið á hægri akrein. Pilturinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er óaðgæsla hins gangandi en jafnframt rakin til of hraðs aksturs ökumanns miðað við aðstæður þar sem gera má ráð fyrir börnum á ferð.    

Þann 12. júní um klukkan 13 var ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut á Karlabraut við Vífilsstaðaveg. Hinn gangandi leitaði á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs of hraðs aksturs við gangbraut.

Þann 14. júní um klukkan 17 var bifhjóli ekið af Hvalfjarðarvegi og inn á Vesturlandsveg til suðurs og þar inn í röð bifreiða. Biðskylda er á Hvalfjarðarvegi gagnvart umferð um Vesturlandsveg. Á Vesturlandsvegi við gatnamótin var bifreið ekið aftan á hjólið. Ökumaður féll í götuna við höggið og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur beggja ökumanna.

Þann 15. júní um klukkan 15 þurfti hjólreiðamaður í Kex hjólreiðakeppni að snarstöðva hjólhest sinn vegna gangandi vegfaranda á leið yfir gangbraut. Annar keppandi kom þá aðvífandi og lenti á þeim fyrir framan. Sá er hjólað var á leitaði sér síðar aðhlynningar á slysadeild. Skipulag keppnishaldara og viðbúnaður var ekki nægjanlega markviss að mati lögreglu og orsök slyssins m.a. rakin til þess.  

Þann 16. júní um klukkan 15 var rútubifreið ekið aftan á fólksbifreið er stöðvaði á rauðu ljósi við gatnamót Breiðholtsbrautar og Seljaskóga. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.

Þann 18. júní um klukkan 13 var bifreið ekið inn á Langholtsveg frá Gnoðarvogi og þar í veg fyrir bifreið er ekið var um Langholtsveg. Biðskylda er á Gnoðarvogi gagnvart umferð um Langholtsveg. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegs aksturs um vegamót þar sem biðskylda var brotin.

Þann 20. júní um klukkan 10 missti reiðhjólamaður stjórn á hjólhesti sínum á Grænastekk við Fremristekk, þegar geitungur truflaði einbeitingu hans. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Þann 20. júní um klukkan 21 lentu saman bifreið og bifhjól á gatnamótum Hringbrautar og Nauthólsvegar. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um að hafa ekið á móti rauðu ljósi og þannig valdið slysinu.

Þann 23. júní um klukkan 6 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Sæbrautar og Snorrabrautar. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann er grunaður um ölvun við akstur.