12 Júní 2013 12:00

Á hálfum mánuði, dagana 27. maí til 9. júní, voru sjö umferðarslys tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt um helmingur þess fjölda sem orðið hefur að jafnaði frá áramótum á sambærilegu tímabili. Í ljósi svo mikillar fækkunar þykir ástæða til að árétta fyrri tilkynningar lögreglu um að vegfarendur sjálfir hafi nánast allt um það að segja hvort slysum fjölgar eða fækkar. Fari þeir varlega, sýni gætni og tillitssemi, mun slysum fækka. Það hafa þeir gert þessar síðustu tvær vikur og er mikið fagnaðarefni.

Að sama skapi er vegfarendum auðvelt að fjölga slysum með upplýstri ákvörðun um hraðakstur, svigakstur, of stutt bil milli bíla eða í stuttu máli; tillitsleysi og dónaskap gagnvart öðrum vegfarendum.  Of margir taka ennþá slíka ákvörðun, því miður.

Höfum skoðun á umferðarmálum! Förum varlega, sýnum tillitssemi og ábyrgð gagnvart öðrum og tryggjum þannig að allir komist heilir heim.

Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna:

Þann 27. maí um klukkan 17 var bifreið ekið á mikilli ferð aftan á aðra bifreið þar sem báðar voru á leið í sömu átt á Breiðholtsbraut. Við höggið kastaðist fremri bifreiðin aftan á þá þriðju. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar eftir slysið. Ökumaður sem óhappinu olli ók af vettvangi án þess að gera grein fyrir sér. Hann náðist skömmu síðar. Orsök slyssins er rakin til of hraðs og ógætilegs aksturs auk þess sem grunur leikur á að ökumaður er olli slysinu hafi verið ölvaður og undir áhrifum fíkniefna.

Þann 27. maí um klukkan 20 hjólaði reiðhjólamaður af göngustíg er liggur að Hraunbergi og út á götuna með þeim afleiðingum að hann lenti á hægri hlið bifreiðar er ekið var rólega um Hraunbergið. Reiðhjólamaðurinn var til öryggis fluttur á slysadeild til skoðunar. Orsök slyssins er talin of hraður og ógætilegur akstur hjólreiðamannsins af göngustíg og út á götu.

Þann 1. júní um klukkan 13 var bifreið ekið frá bílskýli við Grensásveg, yfir gangstétt þar við og út á Fellsmúla. Hjólreiðamaður á gangstétt á leið um Fellsmúla lenti á hlið bifreiðarinnar er henni var ekið yfir gangstéttina. Hann var fluttur á slyseild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er aðgæsluleysi ökumanns sem ók út úr bílskýli og yfir gangstétt.

Þann 7. júní um klukkan 19 hjólaði ungur piltur niður brekku á bifreiðastæði við Holtagarða, þar sem það er óheimilt, og í hlið bifreiðar fyrir neðan. Pilturinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til þess að hjólað var of hratt og ógætilega.   

Þann 7. júní um klukkan 19 missti ökumaður jeppabifreiðar stjórn á bifreið sinni á Nesjavallavegi með þeim afleiðingum að hún valt nokkrar veltur og endaði utan í hitaveituröri sem liggur meðfram veginum. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.

Þann 7. júní um klukkan 19 missti ökumaður jeppabifreiðar stjórn á bifreið sinni á Krísuvíkurvegi við Vatnsskarðsnámur með þeim afleiðingum að hún valt og endaði utan vegar. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.

Þann 9. júní um klukkan 21 var ekið aftan á bifreið er var kyrrstæð við rautt ljós á gatnamótum Sæbrautar og Snorrabrautar. Ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar leitaði sér aðhlynningar á slysadeild. Orsök slyssins er rakin til of hraðs og ógætilegs aksturs auk þess sem grunur leikur á að ökumaður er olli slysinu hafi verið ölvaður.