29 Janúar 2014 12:00
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Í fjórum tilvikum er um að ræða aðgæsluleysi vegfarenda en í einu tilfelli er líkleg orsök veikindi ökumanns.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. janúar.
Árekstur á gatnamótum – útafakstur
Miðvikudaginn 22. janúar urðu tvö umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu, bæði um kl. 17. Á gömlu Hringbraut varð slys með þeim hætti að bifreið var ekið austur gömlu Hringbraut og beygt til vinstri á gatnamótunum við Snorrabraut í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Alls voru þrír vegfarendur fluttir á slysadeild til aðhlynningar úr slysinu. Orsök slyssins er sú að ökumaður sem beygði til vinstri á gatnamótunum virti ekki forgang bifreiðar sem kom á móti. Hitt slysið varð síðan í Rangárseli í Breiðholti þegar ökumaður ók bifreið sinni vestur Rangársel á móts við Seljakirkju. Talið er að ökumaður hafi hlotið aðsvif við aksturinn með þeim afleiðingum að bifreiðin fór framaf 1,5 metra háum kanti og hafnaði á tveimur kyrrstæðum bifreiðum sem stóðu á planinu við Seljakrikju. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Útafakstrar
Fimmtudaginn 23. janúar urðu tvö umferðarslys á höfuðbrgarsvæðinu. Um kl. 17 varð slys á planinu við leikskólann Hörðuvelli við Tjarnarbraut í Hafnarfirði þegar bifreið, sem ekið var um planið, rann stjórnlaust á svelluðu planinu og hafnaði inn í trjábeði og á ljósastaur við leikskólann. Rúða í leikskólanum brotnaði þegar brak kastaðist í rúðuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Orsök slyssins er sú að ökumaðurinn ók ekki nægjanlega gætilega á svelluðu planinu og hjólbarðar bifreiðarinnar voru ekki nægjanlega góðir. Um kl. 20 varð síðan slys á Akrabraut í Garðabæ þegar bifreið var ekið um hringtorg í glerhálku og rann út fyrir veg og staðnæmdist í miklum hliðarhalla. Litlu mátti muna að bifreiðin ylti á hliðina í hallanum. Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er sú að ökumaðurinn ók ekki nægjanlega varlega þar sem hálka var á vegi.
Fékk hurð í andlitið
Sunnudaginn 26. janúar um miðnætti varð slys með afar athyglisverðum hætti þegar bifreið var ekið eftir Lækjargötu í Hafnarfirði. Ölvaður farþegi í aftursæti bifreiðarinnar opnaði hurð bifreiðarinnar á ferð með þeim afleiðingum að hurðin skall utan í umferðarmerki og kastaðist síðan til baka og hafnaði í andliti farþegans. Telja má fullvíst að hinn ölvaði farþegi hafi ekki hugsað af skynsemi þegar hann ákvað að opna hurðina á ferð og er það orsök slyssins. Farþeginn var fluttur á slysadeild til skoðunar.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.