22 Janúar 2014 12:00
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Í þessum fimm slysum voru tveir sem misstu vald á akstrinum með ógætilegum akstri, einn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, einn sem virti ekki biðskyldu á gatnamótum og einn sem fylgdist ekki nægjanlega vel með akstrinum er hann stillti útvarpið í bíl sínum. Í öllum tilvikum var því um að ræða aðgæslu- eða tillitsleysi gagnvart öðrum vegfarendum.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. 21. janúar:
Útafakstur
Þann 16. janúar um kl. 20, varð slys á Kringlumýrarbraut rétt norðan gatnamótanna við Listabraut þegar bifreið var ekið norður Kringlumýrarbraut og missti ökumaður vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði á girðingu á miðeyju sem aðskilur akbrautirnar. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann er grunaður um að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður. Brak úr girðingunni kastaðist á aðra bifreið sem var kyrrstæð skammt frá og hlutust skemmdir af.
Útafakstur-velta
Þann 18. janúar um kl.10 varð slys með þeim hætti að bifreið var ekið upp Lögbergsbrekku á Suðurlandsvegi ofan Reykjavíkur. Er ökumaður kom inn á vegarkafla þar sem tvær akreinar eru fyrir umferð austur, ætlaði hann framúr bifreið sem var ekið á hægri akrein. Við framúraksturinn missti ökumaður vald á bifreið sinni með þeim afleiðingum að bifreiðin snérist á veginum og valt út fyrir veg. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyss er að ekki var ekið nægjanlega varlega við framúraksturinn.
Útafakstur-velta og árekstur á gatnamótum
Þann 19. janúar urðu tvö umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Um kl. 08 varð slys á Elliðavatnsvegi við Vífilsstaðavatn þegar ökumaður missti vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði útaf og valt. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var fluttur á slysadeild til skoðunar. Ökumaðurinn er grunaður um akstur umdir áhrifum fíkniefna. Um kl. 19 varð síðan slys á gatnamótum Breiðvangs og Hjallabrautar í Hafnarfirði. Þar var bifreið ekið af Breiðvangi í veg fyrir bifreið sem ekið var eftir Hjallabraut. Farþegi í annari bifreiðinni hlaut áverka og leitaði læknisaðstoðar. Meiðsli voru þó talin minniháttar. Orsök slyss er að ökumaður virti ekki biðskyldu á gatnamótunum.
Árekstur
Þann 21. janúar um kl. 22. varð slys á Hafravatnsvegi við Hafravatn. Þar hafði ökumaður sveigt yfir á öfugan vegarhelming með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði framaná bifreið sem kom á móti. Báðir ökumenn voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Orsök slyss er að ökumaður á annari bifreiðinni var ekki að fylgjast með akstrinum á meðan hann stillti útvarpið í bíl sínum.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.