20 Febrúar 2014 12:00
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu.
Í einu tilfelli var ekið á gangandi vegfaranda, bifhjólamaður slasaðist eftir að hafa fallið í götuna og tveir slösuðust í aftanákeyrslu við hringtorg.
Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. febrúar.
Bifhjólaslys og aftanákeyrsla
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 15. febrúar. Um kl. 16 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu er hann ók um Sæbraut við Klettagarða. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar, talinn fótbrotinn. Vitni er gáfu sig fram á vettvangi skýrðu frá því að ökumaðurinn hafi sýnt af sér gáleysislegt aksturslag með fyrrgreindum afleiðingum. Rétt eftir kl. 17 varð síðan slys á hringtorgi á Vesturlandsvegi við Úlfarsfellsveg þegar ekið var aftaná bifreið. Við áreksturinn kastaðist önnur bifreiðin upp á hringtorgið og var flutt af vettvangi með kranabifreið. Tveir leituðu læknisaðstoðar á slysadeild eftir óhappið. Orsök slyss er að ökumaðurinn sem ók aftaná hafi ekki ekið með nægjanlegri varúð er hann kom að hringtorginu.
Ekið yfir fót gangandi vegfaranda
Sunnudaginn 16. febrúar kl. 02.30 eftir miðnætti var ekið yfir fót á gangandi vegfaranda á Laugavegi móts við nr. 18. Hinn gangandi vegfarandi var að ræða við farþega í bifreiðinni og þegar henni var ekið af stað varð fótur hans undir vinstra afturhjóli bifreiðarinnar. Hinn gangandi vegfarandi var fluttur á slysadeild til skoðunar.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.