12 Febrúar 2014 12:00
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í jafn mörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Í einu slysi var ekið á gangandi vegfaranda, í öðru blindaðist ökumaður af sól sem var lágt á lofti og hafnaði aftaná bifreið og þá urðu tveir þriggja bíla árekstrar. Í einu slysi varð ökumaðurinn sjálfur fyrir eigin bifreið og slasaðist.
Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. febrúar.
Ekið á gangandi vegfaranda
Laugardaginn 8. febrúar um miðnætti var ekið á gangandi vegfaranda á Skúlagötu við Ingólfsstræti. Vegfarandinn, sem er erlendur ferðamaður, hljóp út úr rútu áleiðis að hóteli sínu og hafnaði framaná bifreið sem var ekið framhjá rútunni í sama mund. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en ekki mikið slasaður að talið er. Örsök slyss er að ökumaðurinn hafi ekki ekið nægjanlega varlega, sér í lagi þar sem hann ók framhjá hópferðabifreið þar sem búast mátti við umferð gangandi vegfaranda.
Ekið aftaná ökutæki
Sunnudaginn 9. febrúar varð slys á Flugvallarvegi í Reykjavík þegar ökumaður, sem ók suður veginn, blindaðist af sól sem var lágt á lofti þennan dag. Hafnaði bifreiðin aftaná annari með þeim afleiðingum að ökumaður aftari bifreiðarinnar leitaði læknisaðstoðar eftir óhappið. Orsök slyssins er sú að ökumaðurinn ók ekki nægjanlega varlega þegar skyggni var takmarkað.
Þriggja bíla aftanákeyrsla
Mánudaginn 10. febrúar um kl. 16.30 varða þriggja bíla aftanákeyrsla á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Var bifreiðunum ekið inn á frárein að Miklubraut til austurs þegar ekið var aftaná bifreið með þeim afleiðingum að fremri bifreiðin kastaðist aftaná þá þriðju. Einn vegfarandi var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyss er sú að ökumaður sem ók aftaná hugði ekki nægjanlega vel að kyrrstæðri bifreið fyrir framan.
Tvö umferðarslys
Þriðjudaginn 11. febrúar urðu tvö umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Um kl. 16.30 varð slys á Reykjanesbraut í Mjódd þegar þremur bifreiðum var ekið suður Reykjanesbraut. Þegar ökumaður ákvað að skipta um akrein varð árekstur sem endaði með því að önnur bifreiðin hafnaði á þeirri þriðju sem var ekið framhjá í sama mund. Einn vegfarandi var fluttur á slysadeild til skoðunar. Orsök slyss er sú að ekki var ekið nægjanlega varlega þegar ökumaður ákvað að skipta um akrein. Þá varð slys um kl. 17.30 í bílakjallara á Höfðatorgi í Reykjavík. Þar hugðist ökumaður bifreiðar opna hlið með kortaskanna en ekki vildi betur til en svo að ökumaðurinn þurfti að stíga út úr bifreiðinni til að ná til skannans. Taldi ökumaðurinn að hann hafi gengið nægjanlega vel frá bifreiðinni er hann steig út en vildi ekki betur til en svo að bifreiðin var sett í bakkgír og varð ökumaðurinn fyrir opinni bílstjórahurðinni og féll í götuna er bifreiðin hélt stjórnlaust afturábak. Varð fótur ökumannsins undir vinstra framhjóli bifreiðarinnar. Bifreiðin staðnæmdist á vegg skammt frá en ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.
Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.