5 Febrúar 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust 23 vegfarendur í 10 umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Slasaðir hafa ekki verið fleiri á einni viku frá áramótum. Munar þar mestu um fjögur slys sem urðu þann 31. janúar þegar sex vegfarendur slösuðust. Þann dag voru akstursskilyrði slæm, snjókoma og slydda og víða hálka. Virðist sem ökumenn hafi ekið alltof hratt miðað við aðstæður. Bæði ber fjöldi óhappa þess merki sem og vitnisburður um að ökutækjum hafi verið ekið óvarlega þrátt fyrir slæm akstursskilyrði. Af þessu hafi hlotist bæði eigna og líkamstjón. Þrjú slys urðu á ljósastýrðum gatnamótum þar sem bifreiðum var beygt til vinstri í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Það eru umferðarljós sem ekki eru búin sér beygjuljósum. Í tveimur slysum var ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og í öðrum tveimur var ekið aftaná ökutæki.

Tímasetningar, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. janúar – 4. febrúar.

Árekstur

Miðvikudaginn 29. janúar um kl. 11 varð slys á Strandvegi við Borgarveg í Grafarvogi. Þar var bifreið ekið norður Strandveg og í hálku missti ökumaðurinn vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir umferðareyju á milli akbrauta og hafnaði framaná bifreið sem kom á móti. Fimm aðilar leituðu læknisaðstoðar eftir óhappið. Orsök slyssins er að ekki var ekið í samræmi við aðstæður.

Ekið á mann á reiðhjóli

Fimmtudaginn 30. janúar um kl. 7.30 varð slys á gatnamótum Arnarnesvegar og Hegraness/Súluness á Arnarnesi í Garðabæ. Hjólreiðamaður hjólaði Hegranes til norðurs og ætlaði þvert yfir Arnarnesveg. Bifreið sem var ekið eftir Súlunesi og beygt til vinstri austur Arnarnesveg hafnaði á hjólreiðamanninum á gatnamótunum. Ekki hlaust mikið slys af þessu en hjólreiðamaðurinn var samt sem áður fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Fjögur umferðarslys

Föstudaginn 31. janúar urðu fjögur umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Um kl. 01 varð slys á á Vatnsendavegi í Kópavogi, í hringtorgi við Austurkór. Þar hafnaði bifreið á ljósastaur þegar henni var ekið út úr hringtorginu. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar eftir óhappið. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna og að auki hafði hann áður misst ökuréttindin vegna sama brots. Kl. 11.30 varð slys á Höfðabakka á gatnamótunum við Stórhöfða. Þar var bifreið ekið norður Höfðabakka og beygt til vinstri á gatnamótunum í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Ökumenn óku báðir gegn grænu umferðarljósi en sá sem beygði til vinstri virti ekki forgang þess sem kom á móti. Kl. 15.30 varð slys á Strandvegi við Gylfaflöt í Grafarvogi þegar ekið var aftaná bifreið sem var ekið suður Strandveg. Við áreksturinn hafnaði önnur bifreiðin á umferðarljósavita. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Ökumaður er olli slysinu er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og er hann réttindalaus að auki. Um kl. 22 varð síðan slys á Reykjavíkurvegi við Flatahraun í Hafnarfirði þegar bifreið var ekið suður Reykjavíkurveg og beygt til vinstri á gatnamótunum í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Báðir ökumann óku um gatnamótin á grænu ljósi en sá sem tók vinstri beygjuna virti ekki forgang þess sem kom á móti. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Árekstrar

Laugardaginn 1. febrúar urðu tvö umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Um kl. 15 varð harður árekstur og slys þegar bifreið var ekið Reynisvatnsveg til vesturs og beygt til vinstri á gatnamótunum við Víkurveg, í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Alls þurftu fimm vegfarendur að leita læknisaðstoðar vegna slyssins. Gatnamótin eru ljósastýrð og var báðum bifreiðunum ekið gegn grænu ljósi. Ökumaðurinn sem tók vinstri beygjuna á gatnamótunum virti ekki forgang þess er kom á móti. Um kl. 18 varð síðan slys á gatnamótum Tjarnarbrautar og Skothúsvegar í Reykjavík. Bifreið sem ekið var eftir Tjarnarbraut var ekið í veg fyrir bifreið sem ekið var eftir Skothúsvegi. Ökumaður sem olli slysinu er grunaður um að hafa ekki virt biðskyldu á gatnamótunum og auk þess var hann ekki að fylgjast nægjanlega vel með akstrinum á meðan hann fylgdist með GPS-tæki bílsins. Þrír vegfarendur voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

Tveir þriggja bíla árekstrar

Mánudaginn 3. febrúar urðu tvö umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Um kl. 9 varð þriggja bíla árekstur á Höfðabakkabrú þegar tvær bifreiðar lentu saman á beygjuakrein og önnur bifreiðin hafnar á þeirri þriðju. Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Ekki var ekið nægjanlega varlega um gatnamótin er slysið varð. Um kl. 13 varð síðan slys við hringtorg á Smiðjuvegi við Fossvogsbrún þegar bifreið var ekið aftaná aðra með þeim afleiðingum að hún hafnaði aftaná þeirri þriðju. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar en orsök slyssins er að ökumaðurinn hafði ekki fullnægjandi bil á milli bifreiðanna.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.