27 Mars 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Færri slys hafa ekki orðið á einni viku það sem af er ári. Í tveimur tilvikum var ekið á gangandi/hjólandi vegfaranda á gangbraut. Í einu tilviki var ekið aftaná ökutæki og í einu tilviki var ekið útaf.

Vegna aðstæðna í tveimur þessara slysa, þar sem ekið var á gangandi/hjólandi vegfaranda á gangbraut, áréttar lögregla hvatningu til þeirra gangandi að sýna fyllstu aðgæslu þegar farið er yfir götu, fullvissa sig um að ökumenn aðvífandi ökutækja hafi séð þá og muni stöðva áður en farið er yfir. Þá hvetur lögregla ökumenn sem fyrr til að gæta ávallt að gangandi vegfarendum hvenær sem þeirra getur verið von og stöðva ætíð við gangbrautir.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 19. mars. Um kl. 08 varð slys við Hólabrekkuskóla þegar stúlka gekk yfir Austurberg frá Suðurhólum, á merktri gangbraut. Bifreið sem var ekið um götuna var ekið utan í stúlkuna á gangbrautinni með þeim afleiðingum að hún féll í götuna. Stúlkan var flutt á slysadeild til skoðunar. Orsök slyssins er sú að ökumaðurinn var ekki að fylgjast næganlega vel með er hann ók yfir merkta gangbraut og á þeim stað, við skóla, þar sem vænta má umferðar gangandi vegfarenda. Um kl. 15 varð síðan slys á Dalbraut við Kleppsveg þegar ekið var aftaná bifreið sem hafði verið stöðvað við gangbraut þar sem gangandi vegfarandi gekk yfir götuna. Tveir vegfarendur voru fluttir á slysadeild til skoðunar, en þeir hlutu hálshnykk við áreksturinn. Orsök slyssins er sú að ökumaður hugði ekki nægjanlega vel að umferð fyrir framan og hafði ekki nægjanlegt bil á milli ökutækja.

Tvö umferðarslys voru líka tilkynnt sunnudaginn 23. mars. Um kl. 08 varð umferðarslys á Vesturlandsvegi við Reykjaveg í Mosfellsbæ þegar ökumaður missti vald á bifreið sinni á hálum veginum. Hafnaði bifreiðin utan vega. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Snóþekja var á vegi og talsverð hálka. Ökumaðurinn ók ekki nægjanlega varlega við þessar aðstæður. Um kl. 8.30 varð umferðarslys á Borgavegi við Víkurveg þegar barn á reiðhjóli varð fyrir bifreið. Barnið hjólaði yfir Víkurveg á gangbrautarljósum, en beið ekki eftir að fá grænt ljós til að hjóla yfir götuna. Hafnaði barnið framan á bifreið sem ekið var um Víkurveg. Barnið var flutt á slysadeild til skoðunar.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.