13 Mars 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Fimm slys af þessum sjö urðu dagana 5. og 6. mars þegar akstursskilyrði voru slæm á höfuðborgarsvæðinu, snjókoma, hálka og skyggni slæmt. Lögregla minnir því á að gætilegur hægur akstur þegar skyggni er lítið og hálka á vegum, er best til þess fallinn að fyrirbyggja óhöpp og slys. Beinir hún því sérstaklega til þeirra ökumanna sem ekki höfðu þessa einföldu varúðarreglu í huga þessa tvo daga.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. mars.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. mars. Kl. 13.30 varð slys á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesbrú þegar ökumaður missti vald á bifreiðinni í hálku, og hafnaði á ljósastaur. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Talið er að ökumaðurinn hafi ekki ekið nægjanlega gætilega þegar vegur var háll. Kl. 19 varð umferðarslys á Reykjanesbraut í Mjódd þegar bifreið var ekið suður Reykjanesbraut. Ökumaðurinn var ekki að fylgjast nægjanlega vel með akstrinum þegar hann missti vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á ljósastaur. Ökumaður og farþegi í bifreiðinni voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Talið er að ökumaðurinn hafi ekki verið að fylgjast nægjanlega vel með akstrinum þegar vegur var háll og skyggni slæmt. Kl. 19.30 varð umferðarslys á Bústaðavegi móts við Ásgarð. Þar var bifreið ekið vestur Bústaðaveg og missti ökumaður vald á bifreiðinni í hálku og snjóþekju með þeim afleiðingum að bifreiðin snérist á veginum og fór yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði á bifreið sem kom á móti. Bifreiðin reyndist búin slitnum sumarhjólbörðum og ökumaðurinn réttindalaus. Þrír voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að ökumaðurinn hafi ekið óvarlega við þessar aðstæður og þá var bifreiðinni ekki nægjanlega vel búin til aksturs í hálku.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. mars. Kl. 15 varð umferðarslys í Logalandi í Reykjavík þegar verið var að hleypa farþega út úr bifreið. Þegar bifreiðinni var ekið af stað varð fótur farþegans undir afturhjóli bifreiðarinnar. Var farþeginn fluttur á slysadeild til skoðunar. Um kl. 18.30 varð síðan umferðarslys á Höfðabakka við Stekkjarbakka þegar ökumaður missti vald á bifreið sinni í hálku, með þeim afleiðingum að hún hafnaði framaná bifreið sem kom á móti. Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Talið er að ekki hafa verið ekið nægjanlega varlega þegar vegur var háll og skyggni slæmt.

Föstudaginn 7. mars varð umferðarslys á Álftanesvegi þar sem þrjár bifreiðar lentu saman. Þar hafði ökumaður stöðvað á veginum og hugðist beygja til vinstri á gatnamótunum við Herjólfsbraut. Var þá ekið aftaná bifreiðina og hafnaði bifreiðin á annarri sem kom á móti. Sú staðnæmdist síðan á nálægum ljósastaur. Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Talið er að ökumaðurinn, sem ók aftaná, hafi ekki fylgst nægjanlega vel með akstrinum.

Laugardaginn 8. mars varð umferðarslys þegar bifreið var ekið vestur Gnoðarvog og var ekið aftaná aðra í röð bifreiða. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Sá er ók aftaná var ekki að fylgjast nægjanlega vel með akstrinum.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.