19 Apríl 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í átta slysum á höfuðborgarsvæðinu. Þrír gangandi vegfarendur slösuðust, einn á hlaupahjóli og átta vegfarendur voru ökumenn/farþegar í ökutækjum.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. apríl.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 9. apríl. Um miðnætti varð umferðarslys á Sæbraut við Skeiðavog þegar bifreið var ekið suður Sæbraut og hafnar aftaná bifreið fyrir framan. Þrír voru fluttir á slysadeild til skoðunar eftir óhappið. Þarna hafði ökumaður ekið of hratt miðað við aðstæður og ekki gætt að nægjanlegu bili á milli ökutækjanna. Um kl. 17.30 varð umferðarslys á Grensásvegi þegar gangandi vegfarandi gekk út úr stætisvagni og gekk rakleitt fyrir hornið á vagninum og út á götuna í veg fyrir bifreið sem ekið var eftir Grensásveginum. Var gangandi vegfarandinn fluttur á slysadeild til skoðunar.

Tvö  umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 10. apríl. Um kl. 8.30 var rafmagnsvespu ekið á 6 ára dreng á gangbraut á Hagamel í Reykjavík. Drengurinn var á leið í skóla þegar slysið varð, en hann slasaðist nokkuð. Þrettán ára stúlka ók rafmagnsvespunni, en með henni á vespunni var jafnaldra hennar. Stúlkurnar voru lemstraðar eftir slysið, en hvorug þeirra var með hlífðarhjálm. Vegna slyssins á Hagamel vill lögreglan ítreka að foreldrar og forráðamenn ræði við börn sín um hættur í umferðinni og hvað sé leyfilegt og hvað ekki, en t.a.m. er bannað með öllu að aka  rafmagnsvespum á akbrautum. Því miður virðast sumir ekki gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að stjórna slíku farartæki og því er þetta undirstrikað hér. Um kl. 13 varð umferðarslys á Álfaheiði í Kópavogi þegar stúlka á hlaupahjóli náði ekki að stöðva hlaupahjólið í tæka tíð með þeim afleiðingum að hún hjólaði út á götuna og hafnaði á bifreið sem var ekið rólega eftir Álfaheiði. Stúlkan var flutt á slysadeild til skoðunar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. apríl. Um kl. 11.30 varð umferðarslys á Háaleitisbraut í Reykjavík þegar bifreið var ekið norður götuna og beygt til vinstri inn að verslunarmiðstöð, í veg fyrir bifreið sem kom á móti. Báðir ökumenn voru fluttir á slysadeild til skoðunar. Þarna hafði ökumaður ekki gætt að sér er hann beygði til vinstri og virti ekki forgang þess sem kom á móti. Um kl. 18 varð síðan umferðarslys á Álftanesvegi þegar bifreið var ekið vestur veginn og hafnaði útaf og valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann er grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis.

Laugardaginn 12. apríl um kl. 1 eftir miðnætti varð umferðarslys á Stakkahrauni í Hafnarfirði þegar bifreið var ekið afturábak úr bifreiðastæði. Hafði ökumaðurinn ekki gætt að annarri bifreið sem var lagt þvert fyrir aftan bifreið hans og stóð stúlka við hægri hlið bifreiðarinnar og var að tala við farþega. Hafnaði bifreiðin á stúlkunni og á bifreiðinni með þeim afleiðingum að stúlkan slasaðist á fæti. Þarna gætti ökumaður ekki að sér er hann ók afturábak.

Mánudaginn 14. apríl um kl. 8 varð umferðarslys í Skútuvogi í Reykjavík. Ökumaður bifhjóls ók vestur Skútuvog og hóf framúrakstur. Hugðist hann aka framúr tveimur bifreiðum. Var hann kominn framúr einni bifreið þegar sú fremri var beygt til vinstri inn á plan við fyrirtæki. Hafnaði bifhjólamaðurinn á vinstri hlið bifreiðarinnar og kastaðist síðan í götuna. Bifhjólamaðurinn og ökumaður bifreiðarinnar voru báðir fluttir á slysadeild til skoðunar.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.