9 Apríl 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust fimm í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. 

Athygli vekur að tveir þeirra eru reiðhjólamenn, en þeir báru ekki hjálm á höfði og hlutu báðir höfuðáverka. Nú á vordögum, þegar reiðhjólaumferð eykst, vill lögreglan minna á mikilvægi þess að reiðhjólamenn noti reiðhjólahjálma. Hjálmar hefðu komið í veg fyrir höfuðáverkana í báðum þessum slysum.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 1. – 8. apríl.

Miðvikudaginn 2. apríl um kl. 16 varð  umferðarslys á Álfabakka þegar hlaupandi vegfarandi hljóp inn á götuna og hljóp á bifreið sem ekið var eftir Álfabakka. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar, ekki mikið slasaður að talið var.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 4. apríl. Rétt eftir kl. 18 varð umferðarslys á Sæbraut við Sundagarða þegar reiðhjólamaður hjólaði eftir gangstétt er framhjólið á reiðhjóli hans losnaði með þeim afleiðingum að maðurinn féll í götuna. Reiðhjólamaðurinn hlaut höfuðáverka, en hann var ekki með hjálm á höfði. Maðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar. Um kl. 21 varð umferðarslys á Reykjavegi í Mosfellsbæ. Bifreið var ekið eftir Reykjavegi og hugðist ökumaður beygja til vinstri inn að innkeyrslu húss. Beygði hann í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn kastaðist bifreiðin á þriðju bifreiðina sem var kyrrstæð þarna rétt við. Einn var fluttur á slysadeild og var sá hinn sami grunaður um að hafa verið ölvaður við aksturinn.

Mánudaginn 7. apríl varð umferðarslys á plani við Skeifuna í Reykjavík þegar gangandi vegfarandi varð fyrir bifreið sem ekið var um planið. Slysið talið mjög minniháttar. Lögreglan var ekki kölluð á staðinn en tjónþoli kom á lögreglustöð síðar til að tilkynna óhappið.

Þriðjudaginn 8. apríl um kl. 14 varð umferðarslys á Austurbugt við tónlistarhús Hörpu þegar reiðhjólamaður hjólaði á staur og féll í götuna með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka á höfði. Reiðhjólamaðurinn bar ekki hjálm á höfði. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.