4 Apríl 2014 12:00

Í síðustu viku slösuðust fjórir í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Þess má geta að í vikunni á undan urðu einnig fjögur umferðarslys, en þá slösuðust fimm.

Tímasetningar, aðdragandi og orsök slysanna sem urðu vikuna 26. mars – 1. apríl.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 28. mars. Um kl. 08 varð umferðarslys á Suðurströnd þegar reiðhjólamaður hjólaði eftir gangstétt og féll á hjóli sínu. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar, ekki talinn alvarlega slasaður. Klukkustund síðar varð umferðarslys á gatnamótum Bústaðavegar og Óslands þegar árekstur varð á ljósastýrðum gatnamótum. Þar var bifreið ekið austur Bústaðaveg og annari af Óslandi inn á Bústaðaveg. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar eftir áreksturinn. Talið er að annar ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu umferðarljósi.

Laugardaginn 29. mars um kl. 13 varð umferðarslys á Grandagarði við Rastargötu þegar bifreið var bakkað úr stæði og hafnaði á gangandi vegfaranda sem, í sama mund, gekk framhjá bifreiðinni. Hinn gangandi vegfarandi var fluttur á slysadeild til skoðunar. Ökumaðurinn hugði ekki nægjanlega vel að annarri umferð áður en hann bakkaði af stað með þessum afleiðingum.

Sunnudaginn 30. mars um kl. 13 varð umferðarslys í Langarima, utan við verslun, þegar ökumaður bifreiðarinnar skildi hana eftir í gangi og í handbremsu. Þegar hann gekk frá bifreiðinni tók hún að renna afturábak og er ökumaðurinn reyndi að stöðva bifreiðina féll hann í götuna með þeim afleiðingum að fótur hans hafnaði undir einu hjóli bifreiðarinnar.

Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.